Nýnemum fækkar í starfsnámi á framhaldsskólastigi

Nýnemum á framhaldsskólastigi fer fækkandi og sífellt fleiri nýnemar kjósa að hefja framhaldsskólanám í bóknámi fremur en starfsnámi. Á tímabilinu 1997-2016 voru nýnemar á framhaldsskólastigi fæstir árið 2002, 4.268, en flestir 2006, 5.429 talsins. Fjöldi nýnema helst í hendur við fjölda 16 ára íbúa, en haustið 2006 hóf einmitt fjölmennur árgangur 16 ára landsmanna nám í framhaldsskóla. Haustið 2016 voru nýnemar á framhaldsskólastigi 4.595 talsins. Hagstofa Íslands hefur nú birt í fyrsta sinn tölur um nýnema á framhaldsskólastigi á árunum 1997-2016.

Á fyrri hluta tímabilsins 1997-2016 hóf um fjórðungur nýnema á framhaldsskólastigi nám á starfsnámsbrautum. Hlutfallið hefur farið lækkandi á undanförnum árum en árið 2016 völdu rúmlega 16% nýnema starfsnám. Hluti skýringarinnar á þessari fækkun er sú að sumir nemendur í starfsnámi hefja framhaldsskólanám með námi á bóknámsbraut, t.d. almennri braut, áður en þeir hefja starfsnám og teljast því með nýnemum í bóknámi.

Piltar eru í meirihluta meðal nýnema í starfsnámi en stúlkur voru stærri hluti nýnema í bóknámi. Munurinn á milli kynjanna í bóknámi minnkaði þó á tímabilinu. Árið 1997 voru stúlkur rúmlega 57% nýnema í bóknámi en tæplega 53% árið 2016. Piltar voru tæplega 61% nýnema í starfsnámi árið 1997 og rúm 64% árið 2016.

Meðalaldur nema við upphaf bóknáms hefur farið lækkandi frá árinu 1997 þegar hann var tæplega 21 ár og var kominn niður í rétt rúmlega 17 ár árið 2016. Ekki má sjá sömu lækkun á meðalaldri hjá nýnemum í starfsnámi en hann hefur sveiflast á milli rúmlega 20 ára til tæplega 24 ára. Árið 2016 var meðalaldur hjá nýnemum í starfsnámi tæplega 22 ár.

Líkar þetta

Fleiri fréttir