Fulltrúar styrkþega og Club 71. Ljósm. kgk.

Hagnaður af þorrablóti rann til félagasamtaka

Hópur í árgangi 1971, sem kallar sig Club ´71, boðaði í dag til sín fulltrúa nokkurra íþróttafélaga á Akranesi auk Björgunarfélags Akraness. Tilefnið var að úthluta ágóðanum sem varð af þorrablóti Akurnesinga sem haldið var í íþróttahúsinu við Vesturgötu 20. janúar síðastliðinn. Sem kunnugt er var það umræddur árangur á Akranesi sem beitti sér fyrir að blótið yrði haldið, nú í áttunda skipti á jafn mörgum árum. Þorrablót Skagamanna hefur notið mikilla vinsælda. Ágóðinn hefur einnig aukist jafnt og þétt, var um 200 þúsund eftir fyrsta blótið sem haldið var 2011 en nú var rúmlega fjórum milljónum króna úthlutað til sex íþróttafélaga og Björgunarfélags Akraness. Heildarfjárhæð sem þorrablótin hafa skilað er tæp 21 milljón króna. Inn í þeirri fjárhæð er ein og hálf milljóna króna greiðsla í kaup á 700 stólum og 80 borðum sem er samstarfsverkefni Íþróttabandalags Akraness og Club ´71.  Nýverið var gengið frá samkomulagi sem mun tryggja að ÍA hafi fengið stólana og borðin að fullu greidd á næstu sjö árum.  Markmiðið er að ÍA geti aukið tekjur félagsins sem nýtist allri íþróttahreyfingunni á Akranesi.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri og talsmaður hópsins sagði í ávarpi, sem haldið var í útibúi Íslandsbanka þegar styrkirnir voru afhentir, að upphafið að blótunum hafi bæði verið vegna þess að þessi árgangur hafi svo gaman af að hittast en einnig í þeim tilgangi að láta gott af sér leiða til samfélagsins. Hagnaðurinn af blótinu hafi verið að aukast og sé orðinn vel viðunandi. Sævar segir að allur undirbúningur og framkvæmd sé í sjálfboðavinnu. Eini starfsmannakostnaður vegna þorrablótsins séu sérhæfðir starfsmenn sem vinna við tæknimál og aðkeyptir skemmtikraftar. Mörg fyrirtæki á Akranesi njóti svo ávinnings af þorrablóti Skagamanna með beinum og óbeinum hætti.

Eins og áður segir voru styrkirnir sem úthlutað var alls rúmar fjórar milljónir króna. Styrkupphæð til hvers og eins var reiknuð út í samræmi við vinnuframlag við þorrablótið. Knattspyrnufélag ÍA, Björgunarfélag Akraness, Golfklúbburinn Leynir, FIMA – Fimleikafélag Akraness, Sundfélag Akraness, Þjótur íþróttafélag fatlaðra og Íþróttabandalag Akraness nutu afrakstursins þetta árið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir