Þessi mynd var tekin á undirbúningsfundi fyrir Mýraeldahátíðina. Til vinstri er Halli frá Háhóli ritari búnaðarfélagsins, í miðjunni er Jógvan Hansen kvöldvökustjóri og til hægri er Sigurjón Helgason formaður Búnaðarfélags Mýramanna.

Mýraeldahátíð hefst með opnu fjósi í dag

Kúabóndinn og formaður Búnaðarfélags Mýramanna, Sigurjón Helgason á Mel, hefur í nógu að snúast þessa dagana. Hann var kjörinn formaður búnaðarfélagsins í fimmta sinn á dögunum og er nú ásamt góðu fólki að undirbúa Mýraeldahátíð sem haldin verður í Faxaborg í Borgarnesi á morgun, laugardag klukkan 13. Auk félagsstarfanna er Sigurjón kúabóndi og býr ásamt eiginkonu sinni, Þóreyju Björk Þorkelsdóttur, og fimm börnum á Mel á Mýrum. Þá gefur hann jafnframt kost á sér í fimmta sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð.

Aðspurður um sveitarstjórnakosningarnar og framboðið segist Sigurjón ekki hafa haft mikinn tíma til að hugsa um það undanfarið. „Ég var að taka nýjan mjaltaþjón í gagnið á dögunum og það hefur í raun átt hug minn allan undanfarið. Kýrnar eru vanafastar og kunnu ekki alveg á þetta kerfi til að byrja með. Ég hef því þurft að sitja yfir þeim og kenna þeim en þær læra á tæknina rétt eins og mannskepnan,“ segir Sigurjón. „Áður voru þær vanar ákveðinni rútínu þar sem ég sá um mjaltirnar en nú þurfa þær að sjá um að skila sér sjálfar í mjaltir. En þetta er allt að koma hjá þeim núna og þá róast hjá mér,“ segir hann og bætir því við að bændastörfin séu alltaf í forgangi. „Kosningabaráttan er að hefjast og ég fer að snúa mér að því núna þegar róast á öðrum vístöðum.“

 

Opið fjós í dag

Aðspurður hvort ráðast hafi þurft í miklar framkvæmdir til að koma mjaltaþjóninum í gagnið svarar Sigurjón því neitandi. „Ég var þegar búinn að breyta fjósinu í lausagöngu svo ég þurfti ekki að fara í neinar stórkostlegar framkvæmdir til að innleiða mjaltaþjóninn. Það er vissulega munur að hafa svona þjón, bæði fyrir mig og kýrnar. Þetta auðveldar mér handtökin en það er líka mun betra fyrir kýrnar að stjórna þessu sjálfar og fá að ganga um lausar frekar en að vera bundnar á bása,“ segir hann og bendir á að á föstudaginn [í dag] verði opið fjós á Hundastapa á Mýrum í tilefni af Mýraeldahátíðinni. „Þar er nýlega búið að taka í notkun nýjan mjaltaþjón frá GEA sem hægt verður að skoða frá klukkan 15-19, auk þess sem boðið verður upp á léttar veitingar og óvænta uppákomu.“

 

Fjölskyldudagskrá á Mýraeldahátíðinni

Mýraeldahátíðin á morgun er haldin til að minnast sinueldanna miklu á Mýrum í byrjun apríl 2006. Er þetta í sjötta skipti sem hátíðin er haldin og hefur hún vaxið töluvert. „Hátíðin er haldin annað hvert ár og fyrst var þetta lítil hátíð en fyrir tveimur árum héldum við hátíðina í fyrsta sinn í Faxaborg og komu þá vel á annað þúsund manns. Þetta er frábær fjölskylduskemmtun þar sem nóg verður í boði fyrir alla. Fjölmörg fyrirtæki hafa boðað komu sína og ætla að sýna vörur og þjónustu. Þá verður handverksfólk með sölubása þar sem hægt verður að kaupa ýmislegt fallegt. Við verðum með hoppukastala fyrir börnin, Mjólkursamsalan verður með ýmislegt góðgæti að smakka og Jógvan Hansen verður með gítarinn og ætlar að hafa smá glens og gaman,“ segir Sigurjón. Um kvöldið verður kvöldvaka í Lyngbrekku og ball að henni lokinni. „Svavar Knútur kemur fram á kvöldvökunni og Þórður Sigurðsson mun segja góðar sögur af Mýramönnum. Afhent verða verðlaun innan sambandsins og fleira skemmtilegt. Eftir kvöldvökuna leika þeir Jógvan og Hreimur Örn Heimisson fyrir dansi fram á nótt. Allir sem hafa náð 18 ára aldri eru velkomnir á kvöldvökuna og ballið og ég lofa góðri skemmtun,“ segir Sigurjón.

Allar nánari upplýsingar um hátíðina má finna á Facebook undir nafninu Mýraeldahátíð. „Þar eru upplýsingar um hátíðina og fyrirtæki sem koma fram. Svo má líka finna þar lag hátíðarinnar en það heitir Bændur um allt land og er baráttulag um íslenskan landbúnað og heilnæma vöru. Þetta er lag norskra bænda sem félagar úr Búnaðarfélagi Mýrarmanna færðu yfir á íslensku og gerðu myndband við.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir