Skuldir Borgarbyggðar komnar niður í 112% af veltu

Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í síðustu viku var ársreikningur sveitarfélagsins fyrir síðasta ár lagður fram. Ársreikningur sýnir jákvæða rekstrarafkomu sem nemur 298,5 milljónum króna. Tekjur jukust um 272,5 milljónir króna á milli ára. Þar af hækkaði útsvar um 187 milljónir, framlög Jöfnunarsjóðs um 64 milljónir og fasteignaskattur um 17 milljónir. Skuldir voru greiddar niður um 284,5 milljónir króna á árinu og ekki reyndist þörf á að taka ný lán, þriðja árið í röð. Vaxtagjöld lækkuðu um 34 milljónir á milli ára. Handbært fé í árslok nam 764 milljónum og jókst um 206 milljónir á milli ára í A hluta. Veltufé frá rekstri var 13,2% en 4,6% í upphafi kjörtímabilsins. „Borgarbyggð er langt innan þeirra fjárhagslegu viðmiða sem fjármálareglur sveitarfélaga gera kröfu um, þ.e. þriggja ára rekstrarjöfnuð, en samanlögð rekstrarafkoma á þriggja ára tímabili er jákvæð sem nemur 896 milljónum króna. Skuldahlutfall heldur jafnframt áfram að lækka og er nú 112% af veltu,“ segir í bókun sveitarstjórnar, en þess má geta að skuldahlutfallið var 158,5% árið 2014 þegar sveitarfélagið var komið í gjörgæslu vegna skulda.

„Óhætt er að fullyrða að fjárhagsstaða Borgarbyggðar er sterk. Unnið er hörðum höndum að því að nýta sterkari fjárhagstöðu sveitarfélagsins til þess að bæta þjónustu við íbúa og gera stórátak í að bæta innviði, s.s. með ljósleiðaravæðingu í dreifbýli og með því að ráðast í löngu tímabæra byggingu fjölnota matsalar við Grunnskólann í Borgarnesi og leikskóla á Kleppjárnsreykjum ásamt endurbótum á báðum starfsstöðvum,“ segir í bókun sem Geirlaug Jóhannsdóttir formaður byggðarráðs lagði fram og samþykkt var á fundi sveitarstjórnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir