
Samþykktu breytingu á aðalskipulagi vegna skotæfingasvæðis
Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti með sjö atkvæðum á fundi sínum 27. mars síðastliðinn breytingu á aðalskipulagi sem felst í að heimilt verði að gera ráð fyrir skotæfingasvæði í landi Hamars ofan við Borgarnes. Tillagan er sett fram á uppdrætti og með greinargerð dags. 5. desember 2017 og tekur til breytingar á aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022, þ.e. að breyta landnotkun svæðis í landi Hamars úr landbúnaðarnotkun í íþróttasvæði. Ný reið- og gönguleið verður lögð 400 m sunnan við skotæfingasvæðið. Fram kemur í fundargerð að málsmeðferð sé samkvæmt 36. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010. Níu ábendingar bárust sveitarfélaginu þegar fyrirhuguð lýsing á breytingunni var auglýst og 125 íbúar skrifuðu sig á undirskriftalista gegn breytingunni. Flest allar ábendingar vörðuðu staðsetningu skotæfingasvæðis. Við afgreiðslu málsins voru sjö sveitarstjórnarfulltrúar samþykkir breytingunni. Atkvæði gegn tillögunni greiddi Geirlaug Jóhannsdóttir (S) en Finnbogi Leifsson (B) sat hjá.