Þær Katla Halldórsdóttir og Ína Dóra Ástríðardóttir í góðum gír. Þær reka saman Hárhús Kötlu á Akranesi en hafa nú sett reksturinn á sölu. Ljósm. aðsend.

Hárhús Kötlu sett á sölu

Katla Hallsdóttir hyggst hætta eða breyta rekstri á Hárhúsi Kötlu á Akranesi eftir ríflega þrjá áratugi. Katla stofnaði Hárhús Kötlu í húsnæði við Suðurgötu árið 1986 og flutti stofuna tíu árum síðar í núverandi húsnæði við Stillholt. Fyrir um 15 árum kom Ína Dóra Ástríðardóttir inn í reksturinn og hafa þær rekið stofuna saman síðan. „Nú er bara svo komið að Ína Dóra ætlar að hverfa til annarra starfa og því var reksturinn settur á sölu. Ínu Dóru langaði bara að prufa eitthvað annað,“ segir Katla. „Viðskiptavinir mínir geta þó alveg verið rólegir því ég fer hvergi. Ég hef staðið í ströngu undanfarið við að svara síma og tölvupósti frá viðskiptavinum sem hafa áhyggjur af að ég sé að hætta. Ég vona að ef reksturinn selst muni ég áfram geta leigt aðstöðu hér innandyra,“ segir Katla. „Ég hef ekki í huga að hætta í hárgreiðslunni og get fullvissað alla mín viðskiptavini að ég fer hvergi, allavega ekki strax,“ bætir hún við.

Húsnæði stofunnar er í eigu Kötlu en hún segist ekki ætla að selja það. „Við ætlum eingöngu að selja reksturinn en ekki húsnæðið og þar sem ég ætla ekki að hætta sjálf kæmi það alveg til greina að selja eingöngu þann hluta sem er í eigu Ínu Dóru,“ bætir Katla við.

Líkar þetta

Fleiri fréttir