
Fíkniefnaneysla er að aukast
Sterkar vísbendingar eru um að fíkniefnaneysla sé að aukast á Akranesi og reyndar einnig víðar um umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi. „Við höfum áhyggjur af þessari þróun. Hér eru að finnast tæki og tól til fíkniefnaneyslu út um allar koppagrundir; á leikskólalóðum, við grunnskólana, á fáförnum bílastæðum og víða á afskekktum stöðum þar sem fíkniefnaneytendur leita sér skjóls til neyslu og/eða sölu. Tölfræðin í fjölda mála bendir í sömu átt um að neysla sé að aukast,“ segir Jónas H Ottósson hjá rannsóknadeild Lögreglunnar á Vesturlandi í samtali við Skessuhorn. Á tímabilinu 1. janúar til 3. apríl sl. hefur lögreglan staðfest 16 tilfelli á Vesturlandi þar sem ökumenn hafa verið undir áhrifum fíkniefna við akstur. Á sama tímabili 2017 voru málin sjö talsins og hafa því meira en tvöfaldast milli ára.
Nánar er fjallað um málið í Skessuhorni sem kom út í dag.