Af Spesíu-Gránu sem fetar nú í fótspor fyrirrennara síns á Hraunsnefi

Í Nýja Tímanum síðasta dag októbermánaðar árið 1957 birtist áhugaverð frásögn Guðmundar Illugasonar um kött einn sem bjó á Hraunsnefi í Norðurárdal á seinni hluta nítjándu aldar. Köttur þessi varð auðugasti allra katta hér á landi fyrr og síðar. Happadrjúgt reyndist að heita á hann og brátt varð mikill sjóður til. Gárungar segja jafnvel að þar hafi orðið til sá vísir að fjármunum sem ýttu undir stofnun Sparisjóðs Mýrasýslu. Um það skal þó ekki fullyrt. Saga kattarins er rifjuð upp í Skessuhorni  vikunnar í tilefni þess að núverandi bændur á Hraunsnefi halda nú kött einn sem þau kalla Spesíu-Gránu, líkt og nafnið sem fram kemur í frásögn Guðmundar G Hagalín af Hraunsnefskettinum, sem að vísu á að hafa verið fress og því heitið Spesíu-Gráni. Núverandi ábúendur binda vonir við að Spesíu-Grána feti í fótspor fyrirrennara hennar og safni auði. Jóhann Harðarson bóndi á Hraunsnefni heldur á meðfylgjandi mynd á kettinum góða að morgni föstudagsins langa. Spesíu-Grána var þá að skottast í kringum Jóhann þegar hann var að gefa grísum, öndum, kálfum, hrossum og kindum á Hraunsnefi. Húsdýrin laða ferðamenn að Hraunsnefni þar sem rekið er myndarlegt sveitahótel og veitingasala.

Lesa má merkilega frásögn Guðmundar Illugasonar af kettinum happadrjúga og um örlög hans í Skessuhorni sem  kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir