Um 900 skipulagðar lóðir fyrir íbúðir eru nú til á Vesturlandi

Nýverið kom út Hagvísir Vesturlands í ritstjórn Vífils Karlssonar hagfræðings hjá SSV. Í honum er að þessu sinni tekin staðan á fasteignamarkaði á Vesturlandi. Meðal niðurstaðna má nefna að íbúðaverð hefur hækkað mikið á Íslandi síðastliðin þrjú til fimm ár, einkum á höfuðborgarsvæðinu, en það hafa tekjur heimilanna einnig gert. Þegar fjöldi íbúða er borinn saman við íbúa á aldrinum 18-75 ára kemur fram að rýmra var um fólk árið 2016 en var árið 1994 á Vesturlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum. Það sama á einnig við um landshluta á norðausturhorni landsins. „Innan Vesturlands sérstaklega má segja að það þrengi að fólki í sveitarfélögum á sunnanverðu Vesturlandi. Íbúðaskorturinn er mestur á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit,“ segir hann. Íbúðum á Vesturlandi hefur fjölgað um 32% frá 1994 en til samanburðar hafði þeim fjölgað um 46% á Suðurlandi á sama tíma, 81% á Suðurnesjum en 49% á höfuðborgarsvæðinu. Vífill segir að heilt yfir standi sveitarfélög á Vesturlandi sig nokkuð vel í að bjóða lóðir til íbúðabygginga þar sem tilbúnar lóðir eru á bilinu 2-39% af fjölda íbúða í viðkomandi sveitarfélögum. Íbúðir eru nú í byggingu í flestöllum sveitarfélögum á Vesturlandi. Fram kemur í skýrslunni að haustið 2017 voru um 900 skipulagðar lóðir til í sveitarfélögunum tíu á Vesturlandi og þar af var verið að byggja á þeim 192 íbúðir.

Þetta er fyrsti hluti Hagvísisins af tveimur eða fleirum þar sem fasteignamarkaðurinn verður í brennidepli. „Það er vegna þess að mjög óvenjuleg staða er þar uppi á Vesturlandi ef marka má niðurstöður könnunar sem gerð hefur verið lengi meðal íbúa á Vesturlandi. Þar kemur fram að staðan á íbúðamarkaðnum er til trafala þegar svörin við stöðu þáttanna „íbúðir til sölu“ og „íbúðir til leigu“ eru túlkuð. Reyndar er það svo að engir eða mjög fáir þættir koma eins illa út úr nýjustu könnuninni,“ segir Vífill.

Uppbygging Hagvísisins er sú að fyrst var skoðað allt landið með áherslu á Reykjavík, þá landshluta og síðan, þrengt niður, á einstök sveitarfélög á Vesturlandi. „Þessi áhersla á Reykjavík kemur til af því að bestu gögnin eru til yfir fasteignamarkaðinn þar yfir langan tíma. Fjölmenni hennar gerir íbúðamarkaðinn mun virkari og eðlilegri heldur en víða annars staðar í fámennari samfélögum víða um land,“ segir Vífill Karlsson.

Hagvísinn í heild sinni má sjá inni á vef SSV, á slóðinni:

http://ssv.is/wp-content/uploads/2018/03/Fasteignaverd-A-Vesturlandi-hagvisir-2017-1-lokaeintak.pdf

Líkar þetta

Fleiri fréttir