Gjaldheimtu verður hætt í september

Á aðalfundi Spalar nýverið kom fram að innheimtu veggjalds í Hvalfjarðargöngum verður hætt í september. Þá segir á vefsíðu Spalar að þessi ákvörðun hafi verið tekið þegar búið var að fara rækilega fyrir skuldbindingar og tekjuáætlanir félagsins. Á fundinum upplýsti Gylfi Þórðarson framkvæmdastjóri fyrirtækisins um að heildarskuldbindingar félagsins til loka rekstrartímabilsins nema um 1.300 milljónum króna. „Þar vegur þyngst annars vegar lokagreiðsla langtímaskulda Spalar við lífeyrissjóði, 418 milljónir króna að meðtöldum vöxtum og verðbótum, og hins vegar útborgun inneignar á áskriftarreikningum og endurgreiðsla vegna veglykla og afsláttarkorta til viðskiptavina, alls um 422 milljónir króna,“ segir á vefsíðu Spalar. Við þetta bætast tekjuskattsgreiðslur og útgreiðsla hlutafjár til arðs- og hluthafa. Gjaldskrá Hvalfjarðarganga hefur verið óbreytt frá 1. júlí 2011 og verður það áfram þar til ríkið fær göngin afhent í haust. Upphaflega átti veggjaldið að fylgja verðlagi í landinu en þar sem umferð varð mun meiri en áætlað var jukust tekjurnar einnig og hefur gjaldið því verið lækkað oftar en það hefur hækkað.

Líkar þetta

Fleiri fréttir