Hér má sjá niðurstöður á öryggisúttekt EuroRAP á Vesturlandi.

Öryggisúttekt á þjóðvegum landsins

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra opnaði í liðinni viku fyrir aðgang að gagnagrunni evrópska vegamatskerfisins EuroRAP. Þar er hægt að nálgast niðurstöður úr öryggisúttekt sem FÍB framkvæmdi á þjóðvegum Íslands, samtals 4.200 kílómetrum. Öryggisúttektin var framkvæmd þannig að ekið var um vegi landsins á sérútbúnum bíl og myndir teknar. Upplýsingarnar eru svo skráðar niður um vegina og umhverfi þeirra. Vegirnir fengu stjörnur sem segja til um hversu öryggir þeir eru, frá einni stjörnu upp í fimm. Aðeins 25% vega hér á landi fengu þrjár eða fleiri stjörnur, um 34% vega fengu tvær stjörnur og 40,9% fengu eina stjörnu, eða lægstu einkunn. Af þeim vegum á Vesturlandi sem voru með í úttektinni var aðeins einn vegur sem fékk fimm stjörnur, Ólafsbraut sem liggur í gegnum Ólafsvík. Fjórir vegakaflar fengu fjórar stjörnur, stuttur kafli á þjóðvegi eitt um Norðurárdal, hluti af þjóðvegi eitt í gegnum Borgarnes, Aðalgata sem liggur í gegnum Stykkishólm og Ennisbraut í Ólafsvík. Aðrir vegir í landshlutanum fengu þrjár stjörnur eða færri.

Við opnun á gagnagrunninum flutti Sigurður Ingi ávarp þar sem hann sagði m.a. að mikilvægt væri að beita öllum ráðum til að bæta umferðaröryggi og að hver króna sem færi í það verkefni myndi skila sér. Árin 2013-2017 fórust 69 manns í umferðinni hér á landi og 936 slösuðust alvarlega en til þess að vegir uppfærist um eina stjörnu þarf slysum að fækka um helming á viðkomandi vegi. Upplýsingar um hvernig megi nálgast niðurstöðurnar er að finna á vef FÍB.

Líkar þetta

Fleiri fréttir