Hlédís Sveinsdóttir við upptökur. Ljósm. úr safni.

Að vestan aftur í loftið á N4

Ný þáttaröð af hinum vinsælu þáttum Að vestan hefur göngu sína á N4 á annan í páskum, 2. apríl klukkan 20. Líkt og áður sjá þau Heiðar Mar Björnsson og Hlédís Sveinsdóttir um gerð þáttanna. „Þetta er búið að vera alveg ótrúlega skemmtilegt verkefni og það er gott að vera farin aftur af stað í tökur,“ segir Hlédís. „Það eru forréttindi að fá að segja frá því jákvæða í samfélaginu og tala við skemmtilegt fólk. Við Heiðar fáum oft hrós fyrir þáttinn en það hrós er viðmælendanna, það eru þeir sem gera þáttinn að því sem hann er. Við erum þakklát fyrir traustið sem þau sýna okkur.“

Fyrsti þáttur Að vestan fór í loftið í apríl árið 2016 og síðan hafa 40 þættir verið framleiddir og sýndir á N4. Hlédís segir viðtökurnar hafa verið afar góðar, bæði meðal viðmælenda og áhorfenda um land allt. „Við fáum afar jákvæð viðbrögð já, enda ekki erfitt að vera með áhugaverða umfjöllun um Vesturland. Það er sannarlega af nógu að taka, verst finnst mér að geta ekki fjallað um allt eða geta bara ekki gert heimildarmynd um hvert og eitt umfjöllunarefni. Helst myndi ég vilja það,“ segir Hlédís og hlær.

Í nýju þáttaröðinni verða fyrstu 12 þættirnir sýndir fram að sumarfríi og fer fyrsti þáttur í loftið á annan í páskum, mánudaginn 2. apríl  kl. 20.00.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir