Fulltrúar yngstu og elstu nemenda GB tóku fyrstu skóflustungurnar að stækkun skólans fyrir réttu ári síðan. Ljósm. mm.

Eiríkur byggir við Grunnskóla Borgarness

Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti á fundi sínum í gær tillögu byggingarnefndar Grunnskóla Borgarness um að semja við EJI ehf., fyrirtæki Eiríks J Ingólfssonar húsasmíðameistara, um byggingu á fjölnota sal og heildarendurbætur við húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi. Skóflustunga að stækkun skólans var tekin fyrir ári síðan, á 150 afmæli verslunarstaðarins Borgarness. EJI ehf. var eini tilboðsgjafinn í verkið þegar það var boðið út fyrr í vetur. Samningsupphæðin er tæpar 698 milljónir króna. Þá er búið að taka verkliðinn „innréttingar“ út úr samningnum, en leita á leiða til að ná þeim verkþætti niður í verði. „Gerður verði fyrirvari í samningnum um að innréttingarhlutinn verði mögulega tekinn út úr samningnum ef ekki semst um hann á milli aðila fyrir lok apríl 2018,“ segir í fundargerð sveitarstjórnar.

 

Val á innréttingum verður endurskoðað

Tilboð EJI ehf. í heildarverkið var við opnun hjá Ríkiskaupum 6. mars 818,5 milljónir króna, eða 16,6% yfir kostnaðaráætlun. Tilboð EJI í verkið fyrir utan innréttingar var hins vegar einungis 11,3% hærra en kostnaðaráætlun. „Mestur munur var á innréttingahlutanum milli kostnaðaráætlunar og tilboðs. Þar sem tilboð í innréttingar skáru sig úr öðrum hluta tilboðsins var ákveðið að skoða þann hluta sérstaklega,“ segir í bókun byggingarnefndar. Endurskoðað verður efnisval og gæðakröfur sem settar eru fram í lýsingu arkitekts í útboðsgögnum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir