Þegar þriggja fasa rafmagn er í boði breytast um leið skilyrði bænda og annarra atvinnurekenda til rekstrar. Við lagningu rafmagns í jörð hverfa einnig úr landslaginu rafmagnsstaurar sem eru hreint ekkert augnayndi. Þessir staurar voru við Hægindi í Reykholtsdal en voru nýlega teknir niður þar sem búið er að leggja rafstrengi í jörð á því svæði. Ljósm. Jósefina Morell.

206 staðir í Borgarbyggð hafa ekki aðgang að þriggja fasa rafmagni

Síðastliðinn fimmtudag fékk byggðarráð Borgarbyggðar á fund til sín Björn Sverrisson svæðisstjóra Rarik á Vesturlandi. Björn fór yfir áform fyrirtækisins um rafvæðingu í þriggja fasa rafmagn í sveitarfélaginu. Meðal annars lagði hann fram lista yfir heimili og vinnustaði sem ekki hafa aðgang að þriggja fasa rafmagni ásamt áætlun um rafstrengjalagnir í Borgarbyggð 2018. Alls eru 206 staðir í sveitarfélaginu á fyrrnefndum lista. Fram kom á fundinum að á þessu ári ráðgerir Rarik að leggja þriggja fasa rafmagn á fjórum leiðum í héraðinu. Í fyrsta lagi frá Brekku í Norðurárdal að Dalsmynni, í öðru lagi frá Deildartungu að Síðumúla. Í þriðja lagi frá Efri Hrepp að stíflu ofan við Andakílsárvirkjun og loks verður framkvæmt við Hálsa í Skorradal.

Á fundi byggðarráðs var samþykkt eftirfarandi bókun: „Byggðarráð Borgarbyggðar skorar á stjórn RARIK að stórauka hjá sér fjárfestingar í innviðum raforkukerfis á landsbyggðinni, einkum og sér í lagi að hraða lagningu þriggja fasa rafmagns. Skortur á þrífasa rafmagni stendur beinlínis atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum.“

Í bókuninni kemur fram að allur nútíma rafbúnaður í landbúnaði sé gerður fyrir þriggja fasa rafmagn og atvinnurekendur í héraðinu búa því við misjöfn skilyrði til framþróunar í atvinnurekstri. „Rekstur RARIK skilar umtalsverðum hagnaði eða 2,5 milljarði 2017, félagið á til handbært fé sem nemur 2,6 milljörðum, 65% eiginfjárhlutfall og býr yfir mikilli umfram fjárfestingagetu sem nýta mætti til að byggja hraðar upp innviði raforkukerfisins í dreifðum byggðum landsins þar sem skortur er á þriggja fasa rafmagni. Byggðarráð skorar á stjórnvöld að framfylgja ákvæðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að hraða þrífösun rafmagns og tryggja að flutnings- og dreifikerfi raforku mæti betur þörfum atvinnulífs og almennings.“

Nánar er fjallað um málið í Skessuhorni vikunnar og rætt við Geirlaugu Jóhannsdóttur formann byggðarráðs.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir