Sjúkrabíllinn sem bilaði í forgangsakstri síðastliðinn fimmtudagsmorgun á pallinum á dráttarbíl Gísla Jónssonar á Akranesi. Var þetta í annað skiptið í sömu vikunni sem sami sjúkrabíll bilar í forgangsakstri. Ljósm. kgk.

„Endurnýjun sjúkrabílaflotans þolir enga bið“

Síðastliðinn fimmtudagsmorgun bilaði sjúkrabíll sem ekið var í forgangsakstri með sjúkling frá Ólafsvík á leiðinni til Akraness. Bilunarinnar var fyrst vart þegar komið var suður að Hítará og skömmu síðar stöðvaðist bíllinn alveg. Þurfti því að senda sjúkrabíl úr Borgarnesi til að sækja sjúklinginn og koma honum undir læknishendur á Akranesi. Dráttarbíll var síðan sendur til að sækja bilaðan sjúkrabílinn og fara með hann á verkstæði.

Var þetta í annað skiptið í sömu vikunni sem sjúkrabíll á Vesturlandi bilar á meðan verið er að flytja sjúklinga. Aðfaranótt þriðjudags bilaði þessi sami bíll og var þá einnig í forgangsakstri.

 

Gjaldgeng fornbifreið í flotanum

Gísli Björnsson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, segir ástandið í sjúkrabílamálum vera algerlega óviðunandi. Bílarnir í flotanum séu gamlir og brýnt sé að endurnýja flotann hið fyrsta. „Sjúkrabílarnir í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands eru 16 talsins. Helst hefði þurft að endurnýja sex þeirra ekki seinna en í gær,“ segir Gísli í samtali við Skessuhorn. Hann dregur fram lista yfir alla bílana í umdæminu og réttir blaðamanni. Þar má sjá að tíu sjúkrabílar af 16 eru meira en tíu ára gamlir og þar af eru tveir bílar eldri en 20 ára og einn er 19 ára. Elsti bílinn er annar tveggja sjúkrabíla á heilsugæslustöðinni í Ólafsvík. Sá er af gerðinni Ford Econoline og er árgerð 1993. Hann verður því 25 ára á þessu ári. Vel að merkja er það sami aldur og bílar þurfa að hafa náð til að skrá megi þá sem fornbifreiðar og fá bifreiðagjöldin niðurfelld. „Í kröfulýsingu velferðarráðuneytisins fyrir sjúkraflutninga var miðað við að sjúkrabílar skyldu ekki verða eldri en fimm ára gamlir, þá þyrfti að skipta þeim út. Meðalaldur bílanna okkar er tæp tólf ár,“ segir Gísli.

 

Líf og limir undir

Undanfarin ár hefur sjúkraflutningum í umdæminu fjölgað um 12 til 15% og voru þeir samtals 2.415 árið 2017. Ýmsar ástæður segir Gísli vera fyrir þeirri fjölgun. Til dæmis sé sent eftir fólki vegna fjölbreyttari tilfella en áður og að sjúkraflutningamenn séu betur menntaðir og hæfari en áður til að veita heilbrigðisþjónustu. Það segir Gísli hið besta mál. Hins vegar hafi flutningar líka aukist vegna þess að vaktir heimilislækna hafi sums staðar verið lagðar af síðustu ár. Umferðarslysum hafi fjölgað mikið vegna stóraukinnar umferðar og að á síðustu misserum hafi orðið þrjú rútuslys í umdæminu. Á sama tíma hefur sjúkrabílaflotinn elst. „Það er óþolandi ástand að hafa ekki örugg tæki sem maður getur treyst þegar þarf að flytja fólk, þar sem líf og limir eru undir,“ segir Gísli. „Þó að sjúkrabílum hafi alla tíð verið mjög vel viðhaldið, þá eru þeir einfaldlega orðnir það gamlir að ekki er lengur hægt að sjá fyrir hvað gæti bilað í þeim. Þess vegna er engan veginn hægt að treysta þeim þegar verið er að sinna sjúku eða slösuðu fólki.“

Gísli segir ástand sjúkrabílaflotans á Vesturlandi dæmigerðan fyrir landið allt. Ekki einum einasta sjúkrabíl á landinu hafi verið skipt út undanfarin þrjú ár. Þá sé ekkert sem bendi til þess að neinn bíll verði endurnýjaður í bráð. Um miðjan mars sagði Rauði krossinn upp samningi sínum við ríkið um allan rekstur sjúkrabíla á Íslandi í gengum sjúkrabílasjóð samtakanna. Samningur Rauða krossins við ríkið rann reyndar út fyrir þremur árum síðan. Undanfarin þrjú ár hefur samningurinn verið framlengdur um einn mánuð í senn, þar til fyrir tveimur vikum síðan að Rauði krossinn sagði honum endanlega upp. „Fyrir vikið hefur ekkert gerst síðan samningurinn rann út. Engir bílar hafa verið endurnýjaðir síðastliðin þrjú ár,“ segir Gísli.

 

Ástandið óviðunandi

En það er ekki nóg með að bílarnir sjálfir séu gamlir og lúnir. Búnaðurinn er í mörgum tilfellum einnig kominn vel til ára sinna. „Börurnar í bílunum okkar eru sumar hverjar orðnar 30 ára gamlar,“ segir Gísli og rifjar upp slys sem varð í umdæminu fyrir bráðum tveimur árum síðan. „Árið 2016 valt sjúkrabíll uppi í Borgarfirði. Þá gerðist það að sjúkrabörurnar, sem voru orðnar gamlar og lúnar, brotnuðu og þær losnuðu. Sjúklingurinn var því laus þegar bíllinn valt, innan um sjúkraflutningamanninn og lauslega hluti sem verið var að nota,“ segir hann. „Það er mikil mildi að allir hafi sloppið að mestu ómeiddir frá þessu því bíllinn valt heilan hring. Þarna hefði getað orðið stórslys. Ég fullyrði að sjúkrabörurnar hefðu ekki brotnað ef um nýjar börur hefði verið að ræða, þær eru mun fullkomnari en þessar gömlu börur sem voru í þessum bíl,“ segir Gísli en bætir því við að ekkert bendi til að þessi búnaður verði endurnýjaður á næstunni, frekar en bílarnir. Sjúkrabílasjóður hafi farið með endurnýjun á búnaði sjúkrabílanna. „Eins og staðan er í dag þarf að endurnýja börur í fimm af okkar bílum og hjartastuðtæki í fimm bílum einnig. Ég sé ekki að þessi tæki verði endurnýjuð á meðan engir samningar eru í gildi, ekki frekar en bílarnir,“ segir hann og ítrekar að ástandið sé óviðunandi. „Að bílar stöðvist trekk í trekk í forgangsakstri vegna bilunar er algerlega óásættanlegt. Núna er bíllinn sem bilaði í síðustu viku á verkstæði og annar í vélarskiptum í Reykjavík. Síðustu ár höfum við getað fengið einhverjar gamlar druslur þegar bílarnir hafa bilað en núna er þeim ekki einu sinni til að dreifa. Okkur vantar því bíla á meðan þessir eru í viðgerð,“ segir hann. „Endurnýjun sjúkrabílaflotans þolir enga bið,“ segir Gísli Björnsson að endingu.

Gísli Björnsson er yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Ljósm. kgk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir