Randi Holaker og Þytur sigruðu örugglega í gæðingafiminni. Ljósm. iss.

Randi og Þytur sigruðu í gæðingafiminni

Keppt var í gæðingafimi í Vesturlandsdeildinni í hestaíþróttum á fimmtudagskvöldið. Randi Holaker á Skáney á hestinum Þyt sigraði í þeirri keppni með miklum yfirburðum, hlaut 7,15 í einkunn. Í öðru sæti varð Ylfa Guðrún Svafarsdóttir á Glanna frá Hofi með 6,79. Þriðji varð Siguroddur Pétursson á Stegg með 6,74, fjórði Haukur Bjarnason á Ísari með 6,68 og fimmta Berglind Ragnarsdóttir og Frakkur með 6,63. Lið Leiknis/Skáneyjar styrkti því verulega stöðu sína á toppi liðakeppninnar og hlaut liðsplatta kvöldsins. Eftir þrjár greinar af sex er Leiknir/Skáney með 152 stig, Stelpurnar frá Slippfélaginu & SuperJeep í öðru sæti með með 128,5 stig og Berg/Hrísdalur/Austurkot í þriðja með 115 stig. Fallbaráttan gæti einnig orðið spennandi í vetur en einungis fimm efstu liðin halda sjálfkrafa keppnisrétti sínum í deildinni til næsta árs en tvö detta út. Lið Hrímnis og Fasteignamiðstöðvarinnar eru nú neðst í liðakeppninni.

Siguroddur Pétursson er áfram langefstur í einstaklingskeppninni með 32 stig og ætlar sér örugglega að verja sæti sitt frá síðasta ári. Ylfa Guðrún er önnur með 24 stig, Randi þriðja með 22 stig, Berglind fjórða með 19 stig en Haukur Bjarnason og Páll Bragi Hólmarsson deila fimmta og sjötta sæti með 15 stig.

Næsta mót í Vesturlandsdeildinni verður fimmtudaginn 5. apríl en þá verður keppt í fimmgangi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir