Myrkvað Snæfellsnes á Jarðarstund

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi, í samstarfi við RARIK, slökktu öll götuljós og ljós í stofnunum á þeirra vegum laugardaginn 24. mars síðastliðinn. Var þetta gert í tengslum við Jarðarstund eða Earth Hour sem er alþjóðlegur viðburður sem haldinn hefur verið frá árinu 2007. Ætlunin með þessu er að vekja fólk til umhugsunar um orkunotkun og loftslagsbreytingar af manna völdum. Fólk var hvatt til að slökkva ljós og önnur raftæki á milli klukkan 20:30 og 21:30 þetta laugardagskvöld. Það var svolítið undarlegt um að litast í Grundarfirði þegar slökkt var á öllum ljósastaurum og eins gott að vera vel merktur með endurskinsmerkjum ef maður ætlaði að vera á ferli á þessum tíma. Hvað þá að taka mynd af miðri götunni eins og ljósmyndari Skessuhorns hætti sér út í á meðfylgjandi mynd.

Líkar þetta

Fleiri fréttir