Fulltrúar sveitarfélaga ásamt ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála við undirritunina á fimmtudag. Ljósm. Stjórnarráðið.

Skrifað undir samninga vegna ljósleiðaravæðingar

Í gær var skrifað undir 24 samninga um styrki fjarskiptasjóðs til sveitarfélaga vegna ljósleiðaravæðingar í tengslum við átakið Ísland ljóstengt. Fulltrúar fjarskiptasjóðs og sveitarfélaganna skrifuðu undir og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, staðfesti samningana með undirritun sinni við athöfn í ráðuneytinu. Sveitarfélögin 24 fá samtals 450 milljónir króna í styrki, frá tveimur og upp í 74 milljónir hvert. Ráðherra skrifaði jafnframt undir samtals 100 milljóna króna samninga við 15 sveitarfélög um sérstaka byggðastyrki vegna ljósleiðaravæðingar. Eru þeir á bilinu ein til 15 milljónir.

Þrjú sveitarfélög á Vesturlandi skrifuðu undir samning við fjarskiptasjóð vegna styrkja til ljósleiðaravæðingar að þessu sinni; Borgarbyggð, Dalabyggð og Skorradalshreppur. Borgarbyggð fær rúmar 33 milljónir í samkeppnisstyrk og rúmar 15 milljónir í byggðastyrk, samtals rúmar 48 milljónir króna. Dalabyggð fær samkeppnisstyrk upp á tæpa 51 milljón og byggðastyrk upp á 3,4 milljónir, samtals rúmar 54 milljónir. Skorradalshreppur fær samkeppnisstyrk upp á 2,9 milljónir en ekki sérstakan byggðastyrk vegna ljósleiðaravæðingar í sveitarfélaginu.

Landsátakið Ísland ljóstengt hóf göngu sína vorið 2016 og er þetta þriðja úthlutun styrkja. Eftir er að semja um styrki vegna 1500 staða af þeim 5500 ótengdu styrkhæfu stöðum sem voru undir í verkefninu þegar því var ýtt úr vör. „Áhersla er lögð á hagkvæma samlegð með öðrum mögulegum veituframkvæmdum og hagkvæma nýtingu innviða sem fyrir eru. Markmið átaksins er að 99,9% lögheimila og fyrirtækja eigi kost á að minnsta kosti 100 Mb/s þráðbundinni nettengingu árið 2020. Ljósleiðaravæðing utan þéttbýlis stuðlar jafnframt að uppfærslu stofnkerfa fjarskipta á landsvísu og er hún þannig forsenda áreiðanleika, útbreiðslu og gagnaflutningshraða allra farneta utan þéttbýlis,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir