Sendir frá sér nýja hljómplötu með gömlum perlum

Melódíur minninganna – hjartnæmustu lög Íslands á 20. öld, er ný plata sem tónlistarmaðurinn Ingimar Oddsson á Akranesi vinnur að útgáfu á. Á plötunni flytur Ingimar lögin sem kynslóðirnar hafa grátið saman yfir í gegnum tíðina og hefur sér til halds og trausts einvalalið íslenskra tónlistarmanna. „Engin rafmagnshljóðfæri eru notuð á plötunni og í einu besta upptökuveri landsins tekst okkur að framkalla þá ljúfu áferð sem tilheyrði hljómplötum á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar,“ skrifar Ingimar á söfnunarsíðunni Karolinafund. „Jafnvel söngstíllinn „með stífa efri vör“ er notaður til að fanga áferð þá sem við þekkjum hjá Alfreð Clausen, Hauki Morthens, Georg Ots, Eduard Khil og mörgum fleiri.“

Vinna við Melódíur minninganna hefur staðið yfir í fimm ár. Sum laganna voru ófáanleg eða týnd en fundust að lokum í upprunalegri útgáfu á vínylplötum. Því munu sumar dægurperlurnar fá að hljóma í fyrsta sinn svo jafnvel áratugum skiptir á Melódíum minninganna.

Platan er tileinkuð áratugalöngu starfi Jóns Kr. Ólafssonar, tónlistarmanns frá Bíldudal, og tónlistarsafni hans sem er einmitt samnefnt plötunni.

Upptökum er lokið í Stúdíó Sundlauginni og stefnt er að útgáfu og útgáfutónleikum í lok aprílmánaðar. Hafin er söfnun á Karolinafund fyrir því sem eftir stendur, sem er hljóðblöndun, mastering og framleiðsla plötunnar. Hægt er að leggja söfnuninni lið á www.karolinafund.com/project/view/2021.

Líkar þetta

Fleiri fréttir