B59 Hotel við Borgarbraut 59 í Borgarnesi. Byggingin til vinstri er íbúðablokk, en í síðustu viku var búið að reisa sex hæðir af átta. Ljósm. þg.

B59 Hotel í Borgarnesi auglýsir eftir starfsfólki

Hús og Lóðir ehf, fyrirtæki Snorra Hjaltasonar byggingaverktaka sem byggir tvö sambyggð hús á lóðunum Borgarbraut 57-59 í Borgarnesi hefur skrifað undir hótelstjórnunarsamning við Capital Hótels um rekstur á nýju fjögurra stjörnu hóteli við Borgarbraut 59. Þá hefur Jóel Salómon Hjálmarsson verið ráðinn hótelstjóri og stefnt er að opnun í byrjun sumars, en nákvæm dagsetning liggur þó ekki fyrir. Í auglýsingu í Skessuhorni vikunnar auglýsri B59 Hótel eftir fólki til starfa, í starf yfirmatreiðslumanns, matreiðslumanns, starfsmanns í eldhúsi, yfirþjóni, starfsmanni í veitingasal, móttöku, herbergisþernu og þvottahús.

Hótelið mun bera heitið B59 Hotel og verður fjögurra stjörnu hótel með þeirri þjónustu og gæðum sem slíku fylgir. „Þar verður 81 herbergi af hæsta gæðaflokki. Á efstu hæð hótelsins eru m.a. þrjár tæplega 50m2 hótelsvítur, auk átta annarra herbergja þaðan sem útsýni er til allra átta. Fullkomin heilsulind og líkamsræktaraðstaða verður á hótelinu, þar sem boðið verður upp á nudd og snyrtimeðferðir. Einnig verður vel búin funda- og ráðstefnuaðstaða til boða á hótelinu. Á B59 Hotel verður 100 sæta veitingastaður, þar sem áhersla verður lögð á árstíðabundið hráefni og matarhefðir Íslendinga munu skipa veigamikinn sess. Þá mun verða lifandi íþróttabar þar sem íslenskum örbrugghúsum verða gerð góð skil. Vonandi mun barinn skipa veigamikinn sess í lífi Borgnesinga á meðan heimsmeistarakeppnin í fótbolta stendur yfir í sumar,“ segir Jón Salómon hótelstjóri.

Hótelið verður opnað í byrjun júní. B59 Hotel verður rekið undir merkjum Capital Hotels sem á og rekur fjóra gististaði í Reykjavík; Capital-Inn, City Center Hotel, City Park Hotel og 4th Floor Hotel. Jóel Salómon Hjálmarsson hótelstjóri er með BA gráðu í alþjóðlegri hótelstjórnun og ferðamálafræði frá IHTTI í Sviss. Hann hefur meðal annars starfað fyrir Starwood Hotels and Resorts, Hakkasan Ltd., Hilton International Hotels og Icelandair Hotels.

Líkar þetta

Fleiri fréttir