Tyson er hér hróðugur eftir bardagann við þvottabjörninn. Ljósm. Birgir Hauksson.

Þvottabjörn veiddur á Reykjanesi

Fyrr í vikunni fannst þvottabjörn við Hafnir á Reykjanesi. Það var Borgfirðingurinn Birgir Hauksson frá Vatnsenda í Skorradal sem var í fjöruferð annarra erinda ásamt minkahundi sínum Tyson: „Einu sinni í mánuði erum við Tyson sendir til að tína öðuskeljar. Yfirleitt finnum við ekkert annað í þannig leiðöngrum en skeljar og oftast nóg af þeim. Þó brá svo við í janúarferðinni að við fundum 5000 ára gamla rostungstönn. Hún var viðráðanleg og ekki til vandræða. Það er annað en hægt var að segja um þetta helgrimma helv.. kvikindi sem varð á vegi okkar í dag og vildi helst drepa okkur báða,“ sagði Birgir að aflokinni þessari fjöruferð sem átti að vera friðsæl og skemmtileg, en bætir því að Tyson hafi haft betur í viðureign þeirra.

Eftir nokkra baráttu hunds og þvottabjarnar varð þetta aðskotadýr í íslenskri náttúru að láta undan. Matvælastofnun fékk dýrið og hefur nú sent það í sýnatöku og til krufningar til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Rannsakað verður hvort þvottabjörninn hafi borið dýrasjúkdóma með sér til landsins. Því hefur Tyson verið gert að sæta einangrun og úr honum tekið sýni þar til niðurstaða krufningar á þvottabirninum liggur fyrir. Ekki er vitað hvernig þvottabjörninn barst hingað til lands, en innflutningur á þvottabjörnum er með öllu óheimill. Talið er líklegt að björninn hafi komið með vöruinnflutningi og sloppið óséður frá skipshlið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir