Päl Coco starfsmaður Sjávarpakkhússins í Stykkishólmi í nýja eldhúsinu.

Stærra eldhús í Sjávarpakkhúsinu

Sjávarpakkhúsið í Stykkishólmi hefur nú fengið örlitla yfirhalningu en opnað var út í kalda útigeymslu við húsið og þar komið upp eldhúsi. „Eldhúsið sem við vorum með var mjög lítið, aðeins um fjórir eða fimm fermetrar að stærð. Þetta rými er töluvert stærra, örugglega um 16 fermetrar svo munar töluverðu,“ segir Sara Hjörleifsdóttir vert í samtali við Skessuhorn. Sjávarpakkhúsið hefur notið mikilla vinsælda og að sögn Söru er alltaf nóg að gera. „Það gengur mjög vel og alltaf nóg af fólki. Gamla eldhúsið annaði í raun alveg því fólki sem kom hingað en það var þröngt um starfsfólkið. Með stærra eldhúsi fer betur um starfsfólkið okkar og við getum verið fleiri hér í einu.“ Aðspurð hvort fleiri breytingar hafi verið gerðar segir Sara svo ekki vera. „Við fórum ekki í neinar aðrar framkvæmdir. Við nýttum að vísu tækifærið og breyttum matseðlinum í leiðinni, en það hafði í raun meira með árstímann að gera heldur en stærra eldhús. Við breytum alltaf matseðlinum reglulega,“ segir Sara.

Líkar þetta

Fleiri fréttir