Orka heimilanna er nýtt fyrirtæki á raforkumarkaði

Orka heimilanna er nýtt fyrirtæki í sölu rafmagns á Íslandi. „Fyrirtækið hóf starfsemi í mars á þessu ári og markmiðið er að stuðla að aukinni samkeppni og bjóða lægra verð á rafmagni til hagsbóta fyrir heimili og smærri fyrirtæki um land allt,“ segir í tilkynningu frá eigendum, þeim Bjarna Ingvari Jóhannssyni og Lofti Már Sigurðssyni. Með breytingum á lögum árið 2005 var orkufyrirtækjum á Íslandi gert að skilja að söluhluta starfseminnar frá annarri starfsemi og um leið skapaðist tækifæri fyrir nýja aðila á markaði.

„Frá þeim tíma hafa litlar breytingar orðið á markaðnum og sömu aðilar verið með frá upphafi. Samkeppnin hefur helst komið fram í því að stórir raforkukaupendur njóta góðra kjara og um leið góðs af samkeppninni. Orkusölufyrirtæki hafa ekki lagt áherslu á heimilismarkaðinn og minni notendur en við vonum að með komu okkar á markað muni þetta breytast, enda mun Orka heimilanna bjóða upp á góð kjör og góða þjónustu. Í framtíðinni munum við bjóða upp á ýmsar nýjungar sem allar eru til þess fallnar að gera litlum notendum kleift að fá orkuna á sem hagkvæmasta verði,“ segir í tilkynningu, en auk þess: „Við leggjum mikið upp úr því að gera kaupendum sem auðveldast að skipta um raforkusala. Það eina sem notandi þarf að gera er að fara inn á vefsíðu okkar orkaheimilanna.is og skrá sig.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir