Kolbrún Líndal Guðjónsdóttir er nýr eigandi Vitakaffis.

Nýr eigandi Vitakaffis ætlar að opna kokteilbar

Eigendaskipti urðu á Vitakaffi við Stillholt á Akranesi í liðinni viku þegar Kolbrún Líndal Guðjónsdóttir keypti barinn af Steinþóri Árnasyni. Sjálfur keypti Steinþór Vitakaffi í lok síðasta árs og ætlaði að breyta staðnum í írskan pöbb þar sem hægt yrði að kaupa fínni pöbbamat. Skömmu síðar keypti hann Lesbókina Café við Akratorg þar sem hann rekur kaffihús auk þess sem hann sér um mötuneyti Grundaskóla. „Þetta var orðið aðeins of mikið fyrir mig. Það var í raun bara tvennt sem kom til greina, að ég myndi ráða rekstrarstjóra fyrir Vitakaffi eða selja einhverjum sem gæti haldið áfram að rífa þetta upp og gera eitthvað almennilegt þar,“ segir Steinþór í samtali við blaðamann. Kolbrún Líndal var áður starfsmaður hjá Steinþóri á Vitakaffi og hann vissi því vel hvað í henni bjó. „Ég vissi að Kolbrún gæti gert góða hluti við staðinn og því var ekki spurning í mínum huga að selja henni þetta þegar hún sýndi áhuga á að kaupa,“ bætir Steinþór við.

Rætt er við þau Steinþór og Kolbrúnu í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir