Verðlaunahafar á mótinu.

Fjölmenni á púttmóti í Brákarey

Síðastliðinn fimmtudag var haldið púttmót félags eldri borgara í púttsalnum í fyrrum kjötsal Sláturhússins í Brákarey. Þar hefur Golfklúbbur Borgarness komið fyrir prýðilegri inniaðstöðu til æfinga og keppni. Félag eldri borgara í Borgarbyggð æfir þar reglulega með um og yfir tuttugu þátttakendum í hvert skipti undir stjórn Ingimundar Ingimundarsonar íþróttakennara. Honum til fulltingis er annar frumkvöðull í íþróttum eldri borgara; Flemming Jessen fyrrum skólastjóri. Ýmsir fleiri leggja gjörva hönd á plóg og til að mynda bökuðu félagsmenn kökur og smurðu brauð þannig að þátttakendur nutu veitinga af fínna taginu í hléi.

Mótið síðastliðinn fimmtudag nefndist Góuþræll FEBBN. Það er nú haldið í annað skipti en þótti takast svo vel að það er sagt komið til að vera. Þátttakan var prýðileg, en á sjöunda tug áhugasamra eldri borgara öttu þar kappi. Keppt var í þremur aldursflokkum og kynjaskipt. Hleypt var inn í brautina í hollum og þeir Ingimundur og Flemming tölvuskráðu úrslit jafnharðan og þau lágu fyrir. Auk púttara úr Borgarbyggð komu gestir á mótið frá fimm félögum eldri borgara; Akranesi, Mosfellsbæ, Garðabæ, Kópavogi og Reykjanesi. Blaðamaður Skessuhorns fylgdist með síðari hluta mótsins á fimmtudaginn. Stemningin var góð og allir sem rætt var við luku lofsorði á framkvæmd og utanumhald Ingimundar og félaga við að halda þessu félagsstarfi uppi. Leikgleðin var í fyrirrúmi en auðvitað eins og í öllum keppnisíþróttum var metnaður til að gera sitt besta.

Sjá myndasyrpu af mótinu í Skessuhorni sem kom út í dag.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir