Bjarnheiður kosin formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

Bjarnheiður Hallsdóttir framkvæmdastjóri Kötlu Travel var í dag kjörin nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, á aðalfundi sem nú stendur yfir. Tekur hún við af Grími Sæmundsen framkvæmdastjóra Bláa Lónsins sem gegnt hefur formennsku á langmesta vaxtarskeiði íslenskrar ferðaþjónustu frá upphafi. Fjögur sóttust eftir embættinu, auk Bjarnheiðar þeir Róbert Guðfinnsson, Þórir Garðarsson og Margeir Vilhjálmsson. Róbert dró framboð sitt til baka áður en til kosningar kom. Bjarnheiður hlaut fylgi 44,72% fundarmanna, sigraði með minnsta mun þann sem næstur kom, en Þórir Garðarsson hlaut 44,62%. Margeir Vilhjálmsson hlaut 10,65%.

Bjarnheiður er fædd og uppalin á Akranesi og búsett þar. Hún hefur á liðnum þremur áratugum starfað í ferðaþjónustu og meðal annars rekið ráðgjafarfyrirtæki á því sviði. „Þau eru óteljandi úrlausnarefnin sem ferðaþjónusta á Íslandi stendur frammi fyrir um þessar mundir og hagsmunamálin sem standa þarf vörð um mörg. Má þar nefna gjaldtöku- og skattheimtumál, samgöngumál, náttúruvernd og umhverfismál. Þar þarf rödd fyrirtækjanna í greininni að vera fastmótuð og skýr,“ segir Bjarnheiður. „Eitt mikilvægasta verkefnið og undirstaða alls hins er að rannsóknir og kannanir sem lúta að ferðaþjónustu verði stórefldar. Að halda Íslendingum í liði með ferðaþjónustunni er sömuleiðis mjög aðkallandi verkefni í augnablikinu. Það er brýnt að verkefnin verði leyst með þekkingu og reynslu í farteskinu og ekki síður af fagmennsku og með langtímahugsun að leiðarljósi. Þar spila Samtök ferðaþjónustunnar lykilhlutverk, bæði hvað varðar innra starf og í samvinnu við stjórnvöld og íslensku þjóðina,“ sagði Bjarnheiður þegar hún kynnti framboð sitt til forustu í SAF.

Líkar þetta

Fleiri fréttir