Þessi þrjú lömb komu í heiminn á Spágilsstöðum í Dölum í síðustu viku.

Snar, Snöggur og Fljót á Spágilsstöðum

Ein kind á Spágilsstöðum í Dölum tók forskot á sæluna og bar óvenju snemma í ár. Hún bar þremur lömbum, tveimur hrútum og einni gimbur, á miðvikudaginn í síðustu viku. Kindin sem er í eigu Gísla Þórðarsonar bónda á Spágilsstöðum kærði sig þó ekki um öll lömbin og afneitaði einu þeirra. „Bjarni Hermannsson á Leiðólfsstöðum hringdi í okkur og sagðist vita um kind sem gæti kannski tekið við lambinu sem kindin vildi ekki. Þá hafði gemlingur á Lambeyrum borið andvana lambi. Gemlingurinn tók nýja lambinu vel og það lifir nú hamingjusömu lífi á nýjum stað,“ segir Fanney Þóra, dóttir Gísla á Spágilsstöðum, þegar blaðamaður heyrði í henni. „Við gerum ekki ráð fyrir að það komi fleiri lömb hjá okkur alveg strax. Þessi kind hefur verið fengin áður en hún kom inn í haust og er þetta örugglega bara einsdæmi,“ svarar Fanney Þóra aðspurð hvort þau gerðu ráð fyrir fleiri lömbum í bráð. Aðspurð hvor lömbin séu komin með nöfn svarar Fanney Þóra því neitandi. „Við eigum eftir að gefa þeim nöfn, ætli þau fái ekki bara nöfnin Snar, Snöggur og Fljót,“ segir Fanney Þóra og hlær.

Líkar þetta

Fleiri fréttir