Stórþorski landað á Akranesi

Bátum hefur nú fjölgað að nýju sem landa afla sínum á Akranesi og binda menn þar vonir við að botninum hafi verið náð í útgerð á staðnum og bjartari tímar séu í vændum. Að sögn Alexanders Eiríkssonar landa nú fjórir bátar reglulega á Skaganum og leggja inn á markaðinn. Eftir að þjónusta fiskmarkaðar hófst að nýju með útibúi Fiskmarkaðar Snæfellsbæjar í vetur varð aftur vænlegur kostur fyrir útgerðarmenn að landa afla sínum á Akranesi enda sem fyrr stutt á fengsæl mið. Veiði að undanförnu hefur verið góð og vel haldinn þorskur fengist á handfærin. Síðastliðinn laugardag var landað nokkrum körum af boltafiski í blíðuveðri á Akranesi. Það var Hringur ÍS-305 sem kom að landi með einhvern jafnstærsta þorsk sem blaðamaður hefur séð úr einum róðri. Út úr kjafti þorsksins vall hálfmelt loðna sem gengið hefur inn á sundin að undanförnu. Aflinn fékkst að sögn Kristjáns Friðriks Einarsson skipstjóra um sjö mílur frá Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir