Hér má sjá jeppann sem ekið var framaf hengju við Strýtur, skammt frá Hveravöllum. Ljósm. Björgunarsveit Hafnarfjarðar.

Annir hjá björgunarsveitum víða um land í gær

Björgunarsveitir víða um land þurftu eftir hádegi í gær að sinna nokkrum útköllum. Kallaðar voru út sveitir vegna tveggja vélarvana báta, annar var skammt frá Akranesi. Í báðum tilfellum tókst áhöfn bátanna að leysa málið á farsælan hátt áður en björgunarbátar komu á vettvang og var því aðstoð afþökkuð. Á fjórum stöðum á landinu voru útköll vegna slysa og óhappa. Um klukkan 13:00 var óskað eftir aðstoð vegna jeppa sem ekið hafði fram af hengju við Strýtur sunnan við Hveravelli. Þrjár björgunarsvetir voru á svæðinu í æfingaferðum og gat starfsfólk Neyðarlínunnar því óskað eftir aðstoð þeirra.  Þrír voru slasaðir í bílnum og var óskað eftir þyrlu til að flytja fólkið af vettvangi. Björgunarsveitarfólkið hlúði að þeim slösuðu og bjó um það til flutnings með þyrlu Landhelgisgæslunar sem kom á vettvang á fjórða tímanum og flutti fólkið á sjúkrahús.

Rétt fyrir þrjú í gær var björgunarsveitin í Grindavík kölluð út vegna fjórhjólaslyss á veginum að Vigdísarvöllum við Suðurstrandarveg. Björgunarsveitarfólk ásamt sjúkrabíl frá Grindavík fór á vettvang þar sem maður hafði velt fjórhjóli sínu og var slasaður. Vegna ástands sjúklings var ekki talið ráðlegt að flytja hann landleiðina og var því óskað eftir þyrlu. Viðbragðsaðilar á vettvangi hlúðu að sjúklingnum á meðan beðið var eftir þyrlu, en á þessum tíma var þyrla frá Landhelgisgæslunni að sinna útkallinu á hálendinu. Önnur þyrla kom á vettvang um klukkan fjögur og flutti manninn á sjúkrahús.

Um það leiti sem þyrlan er að lenda hjá fjórhjólamanninum þá var björgunarsveitin á Dalvík boðuð út vegna slasaðs skíðamanns á Heljardalsheiði. Björgunarsveitarfólk ásamt sjúkraflutningamönnum frá Dalvík fóru á vettvang á vélsleða. Loks voru björgunarsveitir á Suðurlandi boðaðar út undir kvöld vegna vélhjólaslyss í Þykkvabæjarfjöru.

Líkar þetta

Fleiri fréttir