Rósa Marinósdóttir hlaut gullmerki UMFÍ fyrir vel unnin störf í þágu íþróttastarfs UMSB. Hér eru hún ásamt Jóhanni Steinari Ingimundarsyni frá UMFÍ.

Rósa Marinósdóttir sæmd gullmerki UMFÍ

Sambandsþing Ungmennasambands Borgarfjarðar var haldið á Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri síðastliðið miðvikudagskvöld. Í tilkynningu frá sambandinu kemur fram að þingið hafi verið gott og fundarmenn farið sáttir heim. Jóhann Steinar Ingimundarson úr stjórn UMFÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ mættu á þingið. Jóhann veitti Kristjáni Gíslasyni starfsmerki UMFÍ fyrir gott starf í þágu hreyfingarinnar og Rósa Marinósdóttir hlaut gullmerki UMFÍ fyrir framlag sitt til íþróttastarfsins innan UMSB í gegnum árin. Þá fengu sjö aðilar úthlutað styrkjum úr afreksmannasjóði UMSB. Það voru Bjarki Pétursson fyrir golf, Máni Hilmarsson fyrir hestaíþróttir, Daði Freyr Guðjónsson fyrir dans og þeir Arnar Smári Bjarnason, Bjarni Guðmann Jónsson og Sigurður Aron Þorsteinsson fyrir körfubolta.

Kosið var í nýja stjórn UMSB en Sólrún Halla Bjarnadóttir, sem hefur verið í stjórn frá árinu 2013, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Ný stjórn UMSB er nú skipuð af Maríu Júlíu Jónsdóttur sambandsstjóra, Guðrúnu Þórðardóttur varasambandsstjóra, Hafdísi Ósk Jónsdóttur varavarasambandsstjóra, Sigríði Bjarnadóttur gjaldkera, Kristínu Gunnarsdóttur ritara, Önnu Dís Þórarinsdóttur meðstjórnanda, Þórði Sigurðssyni vararitara og Eyjólfi Kristni Örnólfssyni varagjaldkera.

Í tilkynningunni segir jafnframt að stofna eigi faghóp sem hefur það hlutverk að gera verkferla sem félögum ber að fylgja þegar koma upp atvik sem rekja megi til agabrota, ávana- og vímuefnanotkunar, eineltis, kynferðisbrota, alvarlegra veikinda, áfalla, slysa eða andláts. „Hópurinn verður skipaður einum fulltrúa frá Borgarbyggð, þremur aðilum frá UMSB og einum frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir