Ráðherra ætlar að standa vörð um sjálfstæði lítilla háskóla

Bjarni Jónsson varaþingmaður VG í Norðvesturkjördæmi sendi nýverið mennta- og menningarmálaráðherra fyrirspurn um stöðu og sjálfstæði háskóla á landsbyggðinni. Spurði hann hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir því að eyða óvissu sem ríkt hefur undanfarin ár um stöðu og sjálfstæði Háskólans á Hólum, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Háskólans á Bifröst og styrkja og tryggja starfsemi þeirra þannig að þeir geti vaxið í heimabyggðum sínum.

Í svari Lilju Alfreðsdóttur ráðherra menntamála kemur m.a. fram að á síðustu árum hafi verið tekin skref til að renna styrkari stoðum undir rekstur Landbúnaðarháskóla Íslands. „Langvarandi taprekstur var á skólanum fram til ársins 2014 þegar umskipti urðu í rekstri hans í kjölfar víðtækrar endurskipulagningar. Á síðustu þremur árum hefur skólinn skilað jákvæðri afkomu.“ Þá segir að nokkur árangur hafi einnig náðst í rekstri Háskólans á Bifröst. „Halli var á rekstri skólans á árunum 2012–2016 að árinu 2013 undanskildu. Á árinu 2016 var skólinn rekinn með 50 millj. kr. halla. Í árslok 2016 var eigið fé skólans neikvætt um 204 millj. kr. Unnið hefur verið að skipulagsbreytingum á síðustu árum og mikið aðhald hefur verið í rekstri. Í kjölfarið varð viðsnúningur á rekstrinum á árinu 2017 og stefnir í að árið verði gert upp með lítils háttar afgangi.“ Þá segir að það sé von ráðuneytisins að aðhaldsaðgerðir, sala eigna og hækkandi framlög á fjárlögum á undanförnum árum verði til þess að jafnvægi skapist í rekstri Háskólans á Bifröst.

Loks segir í svari Lilju að viðvarandi hallarekstur hafi verið á Háskólanum á Hólum frá árinu 2008 að undanskildu árinu 2013, þegar skólinn skilaði 20,5 millj. kr. rekstrarafgangi. „Þrátt fyrir aðhald í rekstri og hagræðingaraðgerðir, m.a. með samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands um færslu bókhalds, hefur ekki náðst að stöðva hallareksturinn. Síðustu ár hefur árlegur rekstrarhalli verið um 15,5 millj. kr. að meðaltali. Uppgjöri ársins 2017 er ekki lokið, en horfur eru á að rekstrarhalli ársins verði 5–10 millj. kr.“ Þá segir að fjárveitingar til Hólaskóla hafi farið hækkandi.

Í svari við fyrirspurn þingmannsins um hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir því að tryggja áframhaldandi sjálfstæði þessara háskólastofnana og uppbyggingu þeirra, sagði ráðherra: „Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun halda áfram að styðja við sjálfstæði háskóla hér á landi. Ýmis skref hafa verið tekin á undanförnum árum til að styðja við faglega uppbyggingu háskóla hér á landi.“ Loks segir:  „Það er eitt af meginmarkmiðum ráðuneytisins að vinna að uppbyggingu í háskólakerfinu með því að efla gæðastarf til hagsbóta fyrir nemendur og samfélag um allt land.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir