Með allt á hreinu er vel heppnuð og skemmtileg sýning

Söngleikurinn Með allt á hreinu var frumsýndur fyrir troðfullu húsi í Bíóhöllinni á Akranesi á laugardagskvöld. Það er leiklistarklúbbur Nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands sem færir söngleikinn á fjalirnar í samstarfi við Tónlistarskólann á Akranesi. Leikstjóri sýningarinnar er Gunnar Björn Guðmundsson en önnur verk eru öll í höndum nemenda. Uppsetningin er einstaklega metnaðarfull og er fagmannlega að öllu staðið hjá nemendum, bæði á sviði og utan þess.

Eins og nafnið gefur til kynna er söngleikurinn Með allt á hreinu byggður á samnefndri kvikmynd Stuðmanna frá árinu 1982. Fjallar hún um ástir og afbrýði meðlima hljómsveitanna Stuðmanna og Gæranna og ýmsar skemmtilega uppákomur á ferð þeirra um landið.

Eðli málsins samkvæmt leikur tónlist hljómsveitanna stórt hlutverk í sýningu NFFA og tónlistarskólans. Stóðu krakkarnir sig með stakri prýði við flutninginn og er tónlistinni gerð góð skil í sýningunni. Hljómsveitin er skipuð afar vel spilandi krökkum sem slógu ekki feilnótu á frumsýningunni. Söngur flytjendanna var góður og þeir létu örlitla tæknilega erfiðleika í tveimur lögum ekki slá sig út af laginu.

Gömlu góðu aulabrandararnir úr myndinni eru á sínum stað og kitluðu hláturtaugar frumsýningargesta en einnig hafa verið gerðar nokkra viðbætur. Koma þær vel út og leggja sitt af mörkum til sýningarinnar.

Stuðmaðurinn Egill Ólafsson, sem var heiðursgestur frumsýningarinnar, hrósaði krökkunum sérstaklega fyrir viðbæturnar, sagði þær djarfar og sýninguna einstaklega vel heppnaða. Blaðamaður tekur undir með Agli. Uppsetning NFFA og TOSKA á Með allt á hreinu er mjög vel heppnuð og ákaflega góð skemmtun.

Mjög góð mæting hefur verið á þær fjórar sýningar sem búnar eru. Næstu sýningar eru í kvöld, fimmtudag, tvær sýningar á laugardag og á sunnudaginn. Nánari upplýsingar og miðapantanir eru á midi.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir