Steinar Berg Ísleifsson, eigandi og framkvæmdastjóri Fossatúns, við einn af poddunum í Fossatúni. Ljósm. kgk.

„Eftirspurnin eftir poddunum þreföld á við aðra gistingu“

Fyrir þremur árum var gerð breyting á rekstri ferðaþjónustunnar í Fossatúni í Borgarfirði. Horfið var frá hefðbundnum rekstri tjaldsvæðis og þess í stað sett upp svokölluð timburtjöld, eða poddar, upphituð smáhýsi með nettengingu, rafmagni og öllu tilheyrandi. Síðan þá hefur poddunum fjölgað jafnt og þétt og nýverið var níu slíkum til viðbótar bætt við. Eru poddarnir nú orðnir 17 talsins en að sögn Steinar Bergs Ísleifssonar, eiganda og framkvæmdastjóra Fossatúns, verður ekki hætt þar. Stefnt er að því að bæta við fleiri poddum seinna á þessu ári og síðan eftir efnum og aðstæðum og á meðan plássið á gamla tjaldsvæðinu leyfir.

„Þegar við hættum með tjaldsvæðið fyrir þremur árum síðan höfðum við verið forkólfar í því að bjóða meiri þjónustu en þekktist á tjaldsvæðum víðast hvar. Við veittum tjaldbúum aðgang að rafmagni, heitum pottum og interneti til dæmis. Síðan gerist það að við fáum í röðum heimsóknir frá bæjarfélögum sem vildu móta sín tjaldstæði eftir okkar og gerðu það. Þá vorum við allt í einu komin í beina samkeppni við opinbera aðila. Við stöldruðum aðeins við, litum til framtíðar og ákváðum í framhaldi af því að fara alfarið yfir í poddana,“ útskýrir Steinar í samtali við Skessuhorn. „Núna er sá rekstur orðinn fjölbreyttari en í byrjun. Nýju poddarnir eru orðnir einangruð heilsárshús og mjög hagstæður gistikostur, enda er þetta langvinsælasti gistimöguleikinn hjá okkur,“ segir Steinar. „Hér bjóðum við líka gistingu á hefbundnum hótelherbergjum og á gistiheimili, en poddarnir eru langvinsælastir. Ég held að eftirspurnin eftir poddunum sé þreföld á við aðra gistingu hjá okkur,“ bætir hann við.

Nánar er rætt við Steinar Berg í Fossatúni í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir