
Akraneskaupstaður veitir styrki til menningar og íþrótta
Bæjarráð Akraneskaupstaðar samþykkti á fundi sínum um miðjan febrúar stykrveitingar úr sjóði atvinnu-, íþrótta- og menningarmála. Alls voru 35 styrkir veittir að þessu sinni að heildarverðmæti 7,7 milljónir króna. Hæstu einstöku styrkirnir hljóða upp á 500 þúsund krónur. Veitast þeir Grundaskóla vegna söngleiks, leiklistarklúbbi NFFA, einnig vegna söngleiks og til Munins kvikmyndagerðar vegna örmynda úr atvinnusögu Akraness.
Að þessu sinni var afgreiðslu atvinnutengdra styrkumsókna frestað vegna stefnumótunar í atvinnumálum hjá Akraneskaupstað. Því voru aðeins veittir styrkir til verkefna á sviði menningar og íþrótta. Jafnframt ákvað bæjarráð að skilyrða greiðslur til íþróttafélaga að því leyti að styrkþegar sem bjóða upp á tómstundaiðkun fyrir börn og unglinga hafi í gildi siðareglur, viðbragðsáætlanir og fræðslu um ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi fyrir iðkendur og starfsmenn félagsins. Áhersla er að fræðslan nái til þjálfara og starfsmanna. Íþróttafélögin sem fengu úthlutað úr sjóðnum þurfa að skila bæjaryfirvöldum yfirlýsingu frá stjórn félagsins um að slíkt hafi verið uppfyllt fyrir 15. maí næstkomandi.
Samhliða úthlutuninni var ákveðið að skipta sjóðnum upp og verður framvegis sérstakur sjóður fyrir menningarverkefni og annar fyrir íþróttatengd verkefni. Styrkveitingar til atvinnutengdra verkefna verða mótaðar samhliða stefnumótun í atvinnumálum en horft er til þess að þær verði teknar fyrir jafnóðum og þær berast. Mun skóla- og frístundasvið og menningar- og safnanefnd leggja tillögur að reglum fyrir þessa sjóði fyrir bæjarráð í vor.
Hér að neðan má sjá hverjir fengu styrk úr atvinnu-, íþrótta- og menningarmálasjóði að þessu sinni.
kgk
Styrkþegi | Verkefni | Upphæð |
Badmintonfélag Akraness | Rekstrarstyrkur | 200 þús. kr. |
Blakfélagið Bresi | Rekstrarstyrkur | 75 þús. kr. |
Brynjar Már Ellertsson | Ferðastyrkur | 150 þús. kr. |
Fimleikafélag Akraness | Rekstrarstyrkur | 200 þús. kr. |
Golfklúbburinn Leynir | Tækjabúnaður | 200 þús. kr. |
Íþróttabandalag Akraness | Tækjabúnaður | 200 þús. kr. |
Íþróttabandalag Akraness | Markþjálfi | 200 þús. kr. |
Íþróttafélagið Þjótur | Rekstrarstyrkur | 300 þús. kr. |
Jóhann Ársæll Atlason | Ferðastyrkur | 150 þús. kr. |
Karatefélag Akraness | Æfingabúðir erlendis | 150 þús. kr. |
Keilufélag Akraness | Tækjabúnaður | 275 þús. kr. |
Knattspyrnufélag ÍA | Fyrirlestraröð | 300 þús. kr. |
Knattspyrnufélagið Kári | Boltakaup | 150 þús. kr. |
Körfuknattleiksfélag ÍA | Boltakaup | 150 þús. kr. |
Sigurfari – siglingafélag Akraness | Siglinganámskeið | 200 þús. kr. |
Sjóbaðsfélag Akraness | Viðburður á Írskum dögum | 100 þús. kr. |
Sundfélag Akraness | Rekstrarstyrkur | 50 þús. kr. |
Valdís Þóra Jónsdóttir | Ferðastyrkur | 300 þús. kr. |
Vélhjólaíþróttafélag Akraness | framkvæmdastyrkur | 50 þús. kr. |
Dularfulla búðin | Vísindaskáldsögusafn | 350 þús. kr. |
Grundaskóli | Söngleikur | 500 þús. kr. |
Hallbera Fríður Jóhannesdóttir | Endurprentun Á ferð og flugi með ömmu | 50 þús. kr. |
Hanna Þóra Guðbrandsdóttir og Birgir Þórisson | Klassískir tónleikar á Vökudögum | 400 þús. kr. |
Ingibjörg Halldórsdóttir | Heimildarmyndahátíð | 300 þús. kr. |
Ingimar Oddsson | Steampunk Iceland hátíð | 150 þús. kr. |
Kór Akraneskirkju | Tónleikar í Bíóhöllinni | 250 þús. kr. |
Kvennakórinn Ymur | Tónleikahald | 100 þús. kr. |
Leikfélagið Skagaleikflokkurinn | Námskeið | 150 þús. kr. |
Leikfélagið Skagaleikflokkurinn | Götuleiksýningar | 200 þús. kr. |
Leiklistarklúbbur NFFA | Söngleikur | 500 þús. kr. |
Lovísa Lára Halldórsdóttir | Hrollvekjuhátíð á Akranesi | 250 þús. kr. |
Muninn kvikmyndagerð ehf. | Örmyndir um atvinnusögu Akraness | 500 þús. kr. |
Norræna félagið á Akranesi | Rekstrarstyrkur | 100 þús. kr. |
FEBAN félag eldri borgara | Rekstrarstyrkur | 300 þús. kr. |
Hljómur kór eldri borgara | Rekstrarstyrkur | 100 þús. kr. |