Unnið á ofnhúsinu. Ljósm. Skessuhorn/ki.

Niðurrif mannvirkja Sementsverksmiðjunnar á áætlun

Starfsmenn verktakafyrirtækisins Work North ehf. hófu sem kunnugt er niðurrif á byggingum og búnaði Sementsverksmiðjunnar á Akranesi á áramótum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, ásýnd svæðisins breyst töluvert og mun áfram taka breytingum næstu mánuði. Að sögn Alfreðs Alfreðssonar, rekstrarstjóra áhaldahúss Akraneskaupstaðar, gengur niðurrifið vel og verkið er allt saman á áætlun.

„Síðast var rifið verkstæðið sem var utan á efnisgeymslunni og núna er verið að rífa ofnhúsið og kvarnarhúsið,“ segir Alfreð í samtali við Skessuhorn. „Gert er ráð fyrir því að klára að rífa ofnhúsið í vikunni. Síðan á eftir að mylja steypuna og flokka efnið,“ segir hann, en það er töluverð vinna. „Það er mjög mikið af brotajárni sem fellur til við niðurrifið. Þeir telja að þegar allt verður talið geti það verið á bilinu tvö til þrjú þúsund tonn. Þeir pressa allt brotajárn á staðnum og síðan verður því skipað út jafnóðum. Það er einmitt áætlað að söfnunarskip komi að sækja brotajárn í enda mánaðarins,“ segir Alfreð að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir