Svipmynd frá Írskum vetrardögum á síðasta ári. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Írskir vetrardagar hefjast á Akranesi í dag

Í dag hefjast Írskir vetrardagar í þriðja sinn á Akranesi og standa fram á sunnudag. Markmið hátíðarinnar er að halda í heiðri tengingu Akurnesinga við írska arfleifð. Hátíðin hefst á kvöldstund með Elly og Margréti Blöndal í Stúkuhúsinu klukkan 20 í kvöld. Margrét Blöndal skrifaði ævisögu Ellyar og ætlar hún að segja frá leit sinni að Elly og hver þessi kona var sem þjóðin dáði. „Hátíðin er fremur lítil og sæt í sniðinu og því miður náðist ekki að vera með jafn mikið írskt á efnisskránni eins og við hefðum viljað. Þrátt fyrir það verður ýmislegt skemmtilegt og áhugavert í boði,“ segir Ella María, skipuleggjandi hátíðarinnar í samtali við Skessuhorn. „Stóra írska númerið í ár verður fyrirlesturinn „Frændur eða fjendur“ sem fer fram á bókasafninu kl. 13 á laugardaginn. Þar mun Sólveig Jónsdóttir, rithöfundur og stjórnmálafræðingur, fara yfir og bera saman sjálfstæðisbaráttur og þjóðernishyggju okkar Íslendinga og Íra. Við fyrstu sýn virðist sjálfstæðisbarátta þessara þjóða ekki hafa margt sameiginlegt en það var margt svipað sem átti sér stað og mörg skref stigin samtímis á Íslandi og Írlandi og Sólveig ætlar að fara yfir það allt í fyrirlestrinum,“ segir Ella María.

Starfsfólk Landmælinga Íslands verður með Örnefnagöngutúr á morgun, fimmtudag, þar sem gengið verður frá Akratorgi klukkan17:30. Gengið verður að Merkigerði, Krókalóni, Bakkatúni og endar gangan aftur við Akratorg. „Það er líka gaman að sjá hversu vel hefur verið tekið í hátíðina af aðilum í samfélaginu og eru nokkrir sem ætla að standa fyrir viðburðum. Kvöldvökur verða í Gamla kaupfélaginu, þar sem hljómsveitin Grafík verður með tónleika á fimmtudagskvöldinu klukkan 21 og bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór flytja sín vinsælustu lög á föstudagskvöldinu klukkan 21. Hægt er að nálgast miða á báðar kvöldvökurnar á midi.is. Kaja á Café Kaju ætlar að bjóða upp á fiskisúpu með írsku yfirbragði í hádeginu þessa daga þar sem eðalírskar kartöflur koma við sögu en kartöflur héldu einmitt lífi í írsku þjóðinni árum saman,“ segir Ella María og bætir því við að söngleikurinn „Með allt á hreinu“ verði sýndur á fjölskylduvænum tímum, klukkan 16, í Bíóhöllinni bæði laugardag og sunnudag í tilefni Írskra vetrardaga. „Þetta er frábær sýning sem ég mæli eindregið með að fólk sjái,“ segir Ella María. „Það eru skemmtilegir dagar framundan hér á Akranesi og ég hvet fólk til að skoða dagskránna á heimasíðu Akraneskaupstaðar og mæta á alla viðburði,“ bætir hún við.

Líkar þetta

Fleiri fréttir