Byrjað að reisa nýja frístundamiðstöð við Garðavöll

Skóflustunga að nýju frístundahúsi Golfklúbbsins Leynis og Akraneskaupstaðar var tekin í janúar og á fimmtudagsmorgun í liðinni viku voru fyrstu einingarnar hífðar á sinn stað. „Framkvæmdirnar ganga vel. Veðrið í febrúar tafði okkur aðeins en góður gangur hefur verið síðan hægt var að byrja aftur. Þrátt fyrir smávægilegar tafir er verkið á áætlun, bæði í tíma og kostnaði,“ segir Guðmundur Sigvaldason, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Leynis, í samtali við Skessuhorn. „Golfklúbburinn Leynir hefur umsjón með verkinu og heldur utan um framkvæmdir. BM Vallá er aðalverktaki við reisingu hússins en alls koma átta verktakar að framkvæmdunum. Allir koma þeir af Akranesi eða hafa tengingu við bæinn,“ bætir hann við. „Við gerum ráð fyrir því að húsið verði risið í byrjun maí. Þá verður hafist handa við uppsetningu á þakvirki og við að loka húsinu. Í lok maímánaðar verður svo farið í innri frágang hússins,“ segir Guðmundur. Fyrsti áfangi hússins verður tekinn í notkun í haust en stefnt að það verði fullbyggt í apríl á næsta ári.

Nánar er fjallað um framkvæmdirnar og golfsumarið framundan í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir