Vilhjálmur Birgisson. Ljósm. Skessuhorn/mm

Aukinn jöfnuður og vaxtalækkun verður sett á oddinn

„Það er að eiga sér stað lýðræðisbylting. Nú er grasrótin að rísa upp og ætlar að láta til sín taka. Nú munu verkin því verða látin tala. Enda urðu áhrifin á markaði afar eftirtektarverð þegar ljóst var að Sólveig Anna Jónsdóttir og félagar hennar höfðu unnið stórsigur í stjórnarkjöri í Eflingu. Hlutabréfavísitala í Kauphöllinni sýndi rauðar tölur og markaðurinn lék á reiðiskjálfi daginn eftir að talið hafði verið upp úr kössunum,“ segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness í samtali við Skessuhorn. Því er nú spáð að sú hallarbylting sem gerð var í Eflingu, þessu næststærsta einstaka félagi innan raða Alþýðusambands Íslands, marki tímamót í áherslum og starfi verkalýðshreyfingarinnar. Vilhjálmur útskýrir að innan raða Eflingar sé fólk á lægstu launatöxtum sem þekkjast. Þetta er fólkið á leikskólunum, rútubílstjórar og aðrir hópar sem skrapa botninn í launatöflunni.

„Nú ætlar þetta fólk sem er kosið til valda að láta verkin tala. Þannig upplifi ég það nánast sem byltingu það sem er að gerast. Nýjar áherslur eru sífellt að verða meira áberandi innan félaga sem heyra undir Alþýðusambandið.“ Við settumst niður með Vilhjálmi Birgissyni í kjölfar þess að úrslit í atkvæðagreiðslu í stjórn Eflingar urðu ljós í liðinni viku. Í opnuviðtali í Skessuhorni í dag er farið almennt yfir stöðu kjara- og hagsmunabaráttu launþega út frá sýn verkalýðsforyngjans á Akranesi. Rætt er um gjaldmiðil, vexti og lífeyrissjóðina, áherslu á krónutöluhækkun í stað prósentuhækkana, „enda kaupir enginn í matinn fyrir prósentur, það hefur sýnt sig,“ segir Vilhjálmur.

Sjá Skessuhorn sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir