Meistaranám í sjávarbyggðafræði hefur göngu sína í haust

Ný námsleið á meistarastigi, Sjávarbyggðafræði, hefur göngu sína við Háskólasetur Vestfjarða næsta haust og hefur fjármögnun þess verkefnis nú verið tryggð. Gert er ráð fyrir að um 20 nemendur innritist árlega. Sjávarbyggðafræði verður þverfræðilegt nám sem byggir á inntaki og aðferðum félagsfræði, hagfræði, landfræði og skipulagsfræði. Námið er fyrsta sérhæfða námsleiðin í byggðafræði sem boðið er upp á hér á landi og samanstendur af 75 ECTS námskeiðum og 45 ECTS lokaverkefni. Hún var ein af tillögum starfshóps forsætisráðherra um aðgerðaráætlun fyrir Vestfirði sem unnin var árið 2016. Öll kennsla fer fram við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði en nemendur eru formlega skráðir í Háskólann á Akureyri og útskrifast þaðan.

Háskólasetur Vestfjarða starfrækir einnig þverfræðilegt meistaranám í umhverfis- og auðlindastjórnun með áherslu á hafið og ströndina í samstarfi við Háskólann á Akureyri en yfir 100 nemendur hafa útskrifast úr því námi frá árinu 2008. Báðar námsleiðirnar eru alþjóðlegar og kenndar á ensku en áhersla er lögð á að nýta sérstöðu Vestfjarða m.t.t. nálægðar við hafið og strandbyggðirnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir