Hluti gömlu legsteinanna sem nú er verið að byggja yfir á Húsafelli. Sá elsti var á gröf Gríms Jónssonar prests sem dó um 1650.

Sjálfseignarstofnuninni Gömlu sporunum verður komið á fót á Húsafelli

Þegar sjá mun fyrir endann á þeirri uppbyggingu sem nú er langt komin í tengslum við gömlu útihúsin á Húsafelli og byggingu steinahússins, stendur til að komið verði á fót sjálfseignarstofnun í kringum væntanlegt listasafn og sýningarhald, áður en opnað verður með formlegum hætti. Þannig verði lögð áhersla á að formfesta þá umgjörð sem í kringum listasafnið verður. „Okkar markmið er að setja á stofn sjálfseignarstofnun og mun hún fá nafnið Gömlu sporin. Við erum í fyrsta lagi að safna saman í nokkur hús innan lítillar þyrpingar, þeirri arfleifð sem hér á Húsafelli er. Sagan sem bókstaflega drýpur af hverjum steini,“ segir Helgi Eiríksson, sem vinnur ásamt bræðrunum Þorsteini og Páli Guðmundssyni að verkefninu. „Vissulega er það Páll á Húsafelli sem leggur þessu safni mest til, því hann er í okkar huga einn merkasti núlifandi listamaður sem þjóðin á og hér hefur hann stundað list sína frá unga aldri. Það er í raun óvenjulegt út af fyrir sig að hér sé að rísa listasafn um svona sprelllifandi mann eins og Palla,“ segir Helgi og brosir og bendir á að Páll verði ekki sextíu ára fyrr en á næsta ári. Engu að síður hefur honum hlotnast margvíslegur heiður, svo sem fálkaorðan, um hann hefur verið skrifuð bók og gerðar tvær heimildamyndir.

„Það er engu að síður framtíðarsýn okkar að rifja upp þá sögu sem Húsafell hefur að geyma, sýna staðnum og fólkinu aftur í aldir tilhlýðilega virðingu. Sýnilegasti hluti þeirrar sögu hefur óneitanlega verið skráður á síðustu fimmtíu árum með starfi Páls. Í ljósi þess að hann á ekki afkomendur ætlar hann að leggja sín verk inn í sjálfseignarstofnunina Gömlu sporin. Það er hans vilji að skapa safninu fasta og trausta umgjörð og að hún verði best tryggð innan sjálfseignarstofnunar. Slík félög eiga sig sjálf eins og felst í orðanna hljóðan,“ segir Helgi.

Ítarlega var fjallað um þetta verkefni í síðasta tölublaði af Skessuhorni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir