Afmælismálþing Íslenskrar ættleiðingar

Íslensk ættleiðing stendur fyrir afmælismálþingi föstudaginn 16. mars á Hótel Natura. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson mun setja ráðstefnuna og formaður félagsins segir frá helstu vörðum í sögu félagsins. Aðalfyrirlesari á málþinginu verður Sarah Naish sem fræðir gesti um meðferðarnálgun í uppeldi barna sem glíma við tengslavanda. Sarah er félagsráðgjafi í Bretlandi sem hefur starfað í þrjá áratugi innan málefna ættleiddra ásamt því að vera foreldri fimm ættleiddra barna. Hún hefur því gríðarlega reynslu af málaflokknum, bæði faglega og persónulega. Sarah var valin Kona ársins árið 2014 af samtökum kvenna í atvinnulífinu í Bretlandi.

Að loknu erindi Söruh mun dr. Jórunn Elídóttir fjalla um ímyndunaraflið og hvers vegna það skiptir ættleidd börn máli. Lokaerindi málþingsins er í höndum Hildar Óskar Gunnlaugsdóttur, meistaranema í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík, en hún hefur rannsakað líðan fullorðinna ættleiddra Íslendinga. Hildur Ósk er ættleidd frá Indlandi með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar.

Málþingsgestir fara svo inní helgina í syngjandi sveiflu, því Kristín Ósk Wium Hjartardóttir og börnin hennar flytja nokkur lög í lok málþingsins. Kristín Ósk er ættleidd frá Indónesíu.

Stjórn málþingsins er í höndum Sigrúnar Óskar Kristjánsdóttur, tvölfalds Edduhafa fyrir þættina Leitin að upprunanum.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir