
Elsa Lára hlaut jafnréttisviðurkenningu
Á flokksþingi Framsóknarflokksins sem nú stendur yfir í Reykjavík var Elsu Láru Arnardóttur fyrrverandi þingmanni veitt jafnréttisviðurkenning flokksins. Elsa Lára sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs fyrir síðustu þingkosningar starfar nú sem framkvæmdastjóri þingflokksins. „Þessi viðurkenning gefur mér aukinn kraft í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og að stigin verði stór skref í jafnréttismálum en jafnréttisbaráttan er viðvarandi verkefni,“ segir Elsa Lára. „Þó maður bogni um stund, þá brotnar maður ekki, heldur kemur enn sterkari til baka,“ sagði hún jafnframt við þetta tilefni.