Sigrún Ósk Kristjánsdóttir og Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir eru stjórnendur þáttanna Allir geta dansað. Ljósm. Stöð 2.

Vestlendingar áberandi í Allir geta dansað

Allir geta dansað er nýr skemmtiþáttur sem hefur göngu sína á Stöð 2 að kvöldi sunnudags, 11. mars næstkomandi, strax að loknum fréttum. Þættirnir eru gerðir eftir fyrirmynd bandarísku þáttanna Dancing with the Stars. Tíu þjóðþekktir einstaklingar eru paraðir við fagfólk í dansi. Eitt par dettur úr keppni í hverjum þætti þar til eitt par stendur uppi sem sigurvegari.

Hæfileikafólk af Vesturlandi verður áberandi í þáttunum. Stjórnendur þáttanna eru Skagakonurnar Sigrún Ósk Kristjánsdóttir og Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir. Báðar eru þær landsmönnum af góðu kunnar fyrir störf sín í fjölmiðlum og á öldum ljósvakans. „Í öllu falli mega áhorfendur búast við góðri skemmtun og ég tel víst að frammistaða keppenda muni koma á óvart. Nú er þetta fólk sem taldist byrjendur fyrir aðeins örfáum vikum síðan, en það er alveg magnað hvað keppendur hafa náð að tileinka sér á þessum stutta tíma,“ segir Sigrún Ósk Kristjánsdóttir í samtali við Skessuhorn.

Bergþór Pálsson, söngvari úr Borgarfirði, er einn þeirra tíu þekktu einstaklinga sem munu spreyta sig á dansgólfinu. Dansfélagi hans er Hanna Rún Bazev Ólafsdóttir atvinnudansari. Þá mun Daði Freyr Guðjónsson, dansari úr Reykholtsdal, einnig koma fyrir í þáttunum. Hann er margreyndur í faginu þrátt fyrir ungan aldur og margverðlaunaður dansari. Daði verður dansfélagi Hugrúnar Halldórsdóttur fjölmiðlakonu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir