Samræmd próf algjört klúður – Menntamálastofnun ber ábyrgðina

Fresta þurfti í morgun samræmdum prófum í ensku sem nemendur 9. bekkja grunnskóla í landinu áttu að þreyta. Sama gerðist á miðvikudag þegar próf í íslensku var lagt fyrir. Stærðfræðipróf í gær gekk hins vegar nokkurn veginn eins og til var ætlast. Ábyrgð á framkvæmd samræmdra prófa er í höndum Menntamálastofnunar. Fram hefur komið að stofnunin vísar sökinni á tæknifyrirtæki sem hýsir vefþjóna sem héldu utan um prófgögn. Vefþjónar hafi ekki risið undir álaginu. Í viðtali við mbl.is í dag segist Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra vera afar ósátt við hversu illa framkvæmd prófanna hefur gengið. Næstkomandi miðvikudag verður fundað með öllum helstu hagsmunaaðilum og reynt að taka ákvörðun um viðbrögð. Ekki er búið að taka ákvörðun um hvort prófin verði felld niður eða þau lögð fyrir nemendur á nýjan leik. Ráðherra segir að nemendur eigi þó undir öllum kringumstæðum að njóta vafans í þeirri ákvörðunartöku.

Líkar þetta

Fleiri fréttir