Meirihluti íbúa fylgjandi persónukjöri

Eins og Skessuhorn greindi nýverið frá lagði sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar skoðanakönnun fyrir íbúa þar sem kannað var hvort þeim hugnist betur persónukjör eða listakosningar í komandi sveitarstjórnarkosningum. Öllum íbúum Hvalfjarðarsveitar sem náð hafa 18 ára aldri barst bréf þar sem þeim bauðst að taka þátt í könnuninni. Svörin átti svo að senda á skrifstofu sveitarfélagsins fyrir 5. mars sl. Í frétt á vef sveitarfélagsins kemur fram að send voru 490 bréf og að 210 hafi tekið þátt, sem gerir 43% svarhlutfall. Niðurstöður leiddu í ljós að meirihluti íbúa vill viðhafa persónukjör, eða 65% svarenda. 33% íbúa svöruðu að þeir vildu listakosningu. Fjórir seðlar, eða 2%, voru ógildir. Rétt er að halda því til haga að lögum samkvæmt er íbúum frjálst að bjóða fram lista og því er niðurstaða könnunarinnar ekki bindandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir