Teigsskógur. Ljósm. Vegagerðin.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkir að taka Teigsskóg inn á aðalskipulag

Til afgreiðslu sveitarstjórnar Reykhólahrepps á fundi síðdegis í dag var að taka afstöðu til breytingar á aðalskipulagi Reykhólahrepps 2006 – 2018 vegna vegagerðar um Vestfjarðarveg 60, hið fræga mál sem flestir tengja við Teigsskóg. Sveitarstjórn þurfti að taka ákvörðun um leiðarval í aðalskipulagstillögu. Samþykkt var með fjórum atkvæðum gegn einu að setja veglínu um Teigsskóg inn á aðalskipulag sveitarfélagsins. Þá var samhliða hafnað þeim valkosti að gera jarðgöng undir Hjallaháls samhliða nýjum vegi um Ódrjúgsháls.

Í bókun sveitarstjórnar segir: „Sveitarfélagið hefur við vandlega skoðun ákveðið að velja leið Þ-H inn á tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Leitað hefur verið leiða til að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif leiðar Þ-H, kannað ítarlega hvort unnt sé að draga úr kostnaði við leið D2 og auka umferðaröryggi þeirrar leiðar til að hún verði a.m.k. sambærileg og leið Þ-H og skoðað mismunandi útfærslur valkosta. Aflað hefur verið nýrra gagna til að draga úr óvissu um áhrif á umhverfið og upplýsa betur um samfélagsáhrif tímasetninga samgöngubóta. Jafnframt hefur verið litið til þeirra athugasemda, umsagna og ábendinga sem komu fram á kynningartíma vinnslutillögu aðalskipulagsbreytingarinnar,“ segir í umsögn sveitarstjórnar.

„Reykhólahreppur telur ljóst að leið Þ-H hafi umfangsmeiri neikvæð umhverfisáhrif í för með sér en leið D2. Hins vegar hafi hún jákvæðari samfélagsáhrif og bætir samgöngur og eykur umferðaröryggi meira en leið D2. Þá er verulegur munur á kostnaði þessara framkvæmdakosta, sem er slíkur að hann er líklegur til að hafa afgerandi áhrif á tímasetningar samgöngubóta. Sveitarfélagið telur brýna þörf fyrir samgöngubætur, sem felst í auknu umferðaröryggi, aukinni greiðfærni og styttingu leiða. Sú þörf taki til mun fleiri hagsmuna en Reykhólahrepps eingöngu, þar sem hagsmunir ná til allra Vestfjarða. Óásættanleg bið hefur verið á samgöngubótum. Upplýsingar frá yfirvöldum um að leið D2, sem hefur minni umhverfisáhrif í för með sér, geti orðið til þess að seinka framkvæmdum enn frekar, geri það að verkum að Reykhólahreppur telur að hagsmunir samfélagsins vegna bættra samgangna séu meiri en þau neikvæðu umhverfisáhrif sem þau hafi í för með sér. Að teknu tilliti til samfélagsáhrifa, umhverfisáhrifa, samgöngubóta, tímasetninga, mótvægisaðgerða og vöktunar leggur sveitarfélagið til að setja leið Þ-H í aðalskipulag sveitarfélagsins með ákveðnum skilmálum. Við samanburð valkosta um veglínu Vestfjarðavegar í Reykhólahreppi hefur sveitarstjórn litið til fyrirliggjandi gagna, markmiða og efnisgreina náttúruverndarlaga, ítarlegri rannsókna á botndýralíf, straum- og rofi, fiskungviði, samfélagsáhrifum, viðbragða Vegagerðarinnar við spurningum sveitarfélagsins og umsagna og ábendinga hagsmunaaðila, landeiganda og annarra við aðalskipulagsgögn. Reykhólahreppur mun leggja fram ítarlega skilmála í tillögu að aðalskipulagi til að tryggja að umhverfisáhrifin verði ekki meiri en nauðsyn er.“

Þá segir að brýn þörf sé á verulegum samgöngubótum í sveitarfélaginu, sem og í samhengi við aðrar nauðsynlegar samgöngubætur á sunnanverðum Vestfjörðum. „Báðar leiðir til skoðunar koma til með að bæta núverandi ástand. Þær eru hins vegar ólíkar. Leið Þ-H kostar 6 ma.kr. minna, en hefur talsvert meiri umhverfisáhrif í för með sér. Beðið hefur verið eftir samgöngubótum í a.m.k. 15 ár og þörfin orðin verulega brýn að ekki verði unað við lengri bið. Loks eru jákvæð teikn um byggðaþróun og atvinnuþróun í landsfjórðungnum, sem mikilvægt er að nýta og styðja við. Því þarf að mati Reykhólahrepps að ráðast strax eða sem allra fyrst í samgöngubætur til að auka umferðaröryggi, greiðfærni og stytta leiðir,“ segir í ályktun sveitarstjórnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir