Hjónin Valgerður Jónsdóttir og Þórður Sævarsson ætla að opna afþreyingasetur á Akranesi. Með þeim á myndinni er Sylvía, dóttir þeirra hjóna. Ljósm. Guðni Hannesson.

Framkvæmdir að hefjast við Smiðjuloftið á Akranesi

Hjónin Valgerður Jónsdóttir og Þórður Sævarsson standa í stórræðum þessa dagana en þau eru að hefja framkvæmdir við nýtt afþreyingarsetur að Smiðjuvöllum 17 á Akranesi. Þetta nýja fyrirtæki þeirra hjóna hefur fengið nafnið Smiðjuloftið. „Ætlunin er að setja upp klifursal á neðri hæðinni og vera með sal sem hægt er að nýta fyrir námskeið og ýmsa viðburði á efri hæðinni,“ segir Valgerður í samtali við Skessuhorn. Hún segir þau hjónin hafa verið að skoða þennan möguleika frá því síðastliðið haust vegna aðstöðuleysis hjá Klifurfélagi ÍA.

„Þórður stofnaði klifurfélagið og er að þjálfa þar. Aðsókn hefur aukist mjög mikið og annar núverandi aðstaða ekki eftirspurn. Við sáum þarna möguleika á að setja undir sama þak þá starfsemi sem við höfum verið að byggja upp á síðustu árum, þ.e. klifrið og svo tónlistarnámskeið sem ég hef staðið fyrir sem og þjóðlagadagskrána okkar Travel Tunes Iceland. Þetta verður án efa mikil lyftistöng fyrir klifuríþróttina á Akranesi og skemmtileg viðbót við menningarlífið í bænum,“ segir Valgerður. „Auk þessa verður möguleiki á að nýta aðstöðuna fyrir barnaafmæli, fundi og móttöku hópa,“ bætir hún við. Aðspurð hvenær þau stefni á að opna Smiðjuloftið segir hún ekki komna neina dagsetningu. „Ég þori ekki að nefna nákvæma dagsetningu. Við vorum að fá lyklana afhenta og vinnan við uppsetningu á aðstöðunni er rétt að hefjast, en við stefnum á að geta byrjað í maí,“ segir hún að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir