Listakonan Cristina Cotofana.

Cristina Cotofana sýnir í Hallsteinssal Safnahúss

Myndlistarkonan Cristina Cotofana sýnir í Hallsteinssal í Safnahúsinu í Borgarnesi frá 10. mars til 20. apríl nk.  Cristina er fædd í Rúmeníu en ólst upp í Þýskalandi. Hún lagði stund á listnám í Hannover og útskrifaðist árið 2008. Eftir að hafa skapað list með og fyrir fatlaða flutti hún til Íslands árið 2011, varð þriggja barna móðir og vinnur að listsköpun með innblæstri frá þjóðsögum, íslensku landslagi og allskonar hlutum fundnum á ólíklegustu stöðum. Hún býr ásamt fjölskyldu sinni í Bæjarsveit í Borgarfirði.

Æting var mesta ástríða Cristinu á meðan á náminu stóð, en síðar sneri hún athyglinni að teikningum, trésmíðum, leir og vaxi; því sem virtist við hæfi hverju sinni. Núna teiknar hún að mestu leyti með penna og bleki og notar liti sparlega, ef eitthvað. Cristina sýndi ein og með öðrum listamönnum í Borgarnesi 2014 og 2016, á Hvanneyri 2017 og kom að hópsýningum í Brugghúsi Steðja í Flókadal árin 2016 og 2017.

Sýning Cristinu er önnur í röðinni af fjórum listsýningum í Hallsteinssal í ár. Í ársbyrjun setti Guðrún Helga Andrésdóttir þar upp olíumálverk og vatnslitamyndir og 28. apríl verður opnuð sýning á ljósmyndum eftir Áslaugu Þorvaldsdóttur. Laugardaginn 1. september opnar svo myndlistarkonan Steinunn Steinarsdóttir sýningu á verkum sínum og stendur hún fram til loka október.  Tvö listræn sýningarverkefni eru þegar komin á dagskrá hússins á árinu 2019 enda eru listamenn úr héraði duglegir við að skapa list og kynna hana fyrir listunnendum.

Sýning Cristinu Cotofana verður opnuð laugardaginn 10. mars kl. 13.00 og stendur til 20. apríl. Opið verður til kl. 16.00 á opnunardaginn og eftir það kl. 13.00 – 18.00 virka daga.  Ókeypis aðgangur. Ef breytingar verða á auglýstri dagsetningu verður það tilkynnt á www.safnahus.is Þess má einnig geta að fjölmargir menningarviðburðir af ýmsu tagi verða í Safnahúsi á árinu og næstu dagskrárliðir eftir sýningaropnun eru fyrirlestur um Jakobsveginn og myndamorgunn a vegum skjalasafns, hvort tveggja fimmtudaginn 15. mars.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir