Venus NS við bryggju á Akranesi.

Loðnufrystingin hálfnuð á Akranesi

Síðastliðinn fimmtudag var landað fyrsta loðnufarminum á Akranesi á þessari vertíð. Það var Venus NS sem kom með um þúsund tonn að landi kvöldið áður. Gunnar Hermannsson, verkstjóri á Akranesi, sem stýrt hefur hrognaskurði og -frystingu fyrir HB Granda mörg undanfarin ár, segir í samtali við Skessuhorn að vinnslan gangi prýðilega. „Við höfum ekki stoppað vinnslu og frystingu síðan fyrsta loðnan kom að kvöldi 28. febrúar. Þetta hefur gengið vel hjá okkur enda meirihluti starfsfólks vanur. Skipin Víkingur og Venus eru bæði búin að landa í tvígang og von er á Víkingi inn í kvöld,“ sagði Gunnar í samtali við blaðið í gærdag. Hann segir aflann vera blandaðan. Dæmi er um tómar hrygnur en að meðaltali er 24-25% hrognafylling og þroski hrogna um 80%. „Loðnan virðist heldur seinna í þroska en á undanförnum vertíðum,“ bætir hann við. 11.500 tonn voru eftir af loðnukvóta HB Granda þegar vinnslan á Akranesi hófst í síðustu viku. Í gær var búið að landa um helmingi þess eða 5500 tonn og reiknaði Gunnar með að loðnufrysting og -vinnsla muni standa framyfir næstu helgi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir