Sólveig Anna Jónsdóttir verðandi formaður Eflingar stéttarfélags.

Hallarbylting í Eflingu stéttarfélagi

Félagsmenn í stéttarfélaginu Eflingu hafa kosið nýja forystu, en úrslit kosninga lágu fyrir seint í gærkvöldi. Í fyrsta skipti í sögu þessa rótgróna verkalýðsfélags fór fram listakosning. Afgerandi sigur í kosningunni hlaut B-listi, nýtt framboð sem Sólveig Anna Jónsdóttir leiddi. Hlaut B listi 2099 atkvæði eða um 80% greiddra atkvæða. A-listi sem studdur var af fráfarandi stjórn hlaut 519 atkvæði. Athygli vekur að þrátt fyrir að 16.578 félagsmenn hafi verið á kjörskrá voru einungis 2.618 sem nýttu atkvæðisrétt sinn. Á aðalfundi í Eflingu í lok apríl tekur ný stjórn við.

Óhætt er að fullyrða að þessi yfirburða sigur B-lista og Sólveigar Önnu Jónsdóttur í stjórnarkjörinu í Eflingu muni hafa áhrif á þá hugmyndafræði sem rekin hefur verið af meirihluta forystu Alþýðusambands Íslands að undanförnu og veikja stöðu hennar. Sigurður Bessason fráfarandi formaður Eflingar og varaforseti ASÍ studdi framboð A-listans og hlýtur niðurstaðan að verða honum og öðru forystufólki sem talað hefur gegn framboðinu mikil vonbrigði. B listi boðaði hins vegar breytingar og var studdur af þeim hópi verkalýðsleiðtoga innan ASÍ sem hafa verið uppi á kant við forustuna, t.d. þeim Ragnari Ingólfssyni formanni VR og Vilhjálmi Birgissyni formanni VLFA. Vilhjálmur getur ekki leynt gleði sinni yfir úrslitunum og skrifaði í gær þegar úrslit lágu fyrir: „Það má klárlega segja að þetta sé sigur alls verkafólks þar sem samræmdri láglaunastefnu var algerlega hafnað. Nú kæmi mér ekki á óvart að jarðskjálftahrinan sem var úti fyrir Grímsey um daginn muni færast yfir til Samtaka atvinnulífsins, æðstu forystu ASÍ og fjármálakerfisins, enda eru þetta allt aðilar og kerfi sem eru alls ekki ánægðir með þessi úrslit,“ skrifaði Vilhjálmur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir